Ballið á Bessastöðum

Okkar ástsæli forseti Ólafur Ragnar Grímsson bauð fjölmiðlum á ball á Bessastöðum mánudaginn 27. febrúar. Tilefnið var spurningin um það hvort hann ætlaði nú að láta staðar numið eða fara að vilja þjóðarinnar eða að minnsta kosti hluta hennar og halda áfram í embætti. Eitthvað virtist hann nú óstyrkur í dansinum og vissi ekki almennilega í hvorn fótinn ætti að stíga, vinstri eða þann hægri eða í hvaða átt. Lausnin var sú að sleppa þessum dansi og bjóða upp í annan á ótilgreindum tíma í þessari eða þarnæstu viku.

Nú er forseta vandi á höndum. Hann hefur vafalaust ætlað sér að hætta en svo komu nú Guðni, Baldur Óskars og fleiri og fóru að safna undirskriftum þar sem skorað er á hann að halda áfram. Áskorun sem forsetinn ýjaði að að hann hefði ekki haft hugmynd um. Og merkilegt nokk að góðir vinir hans og trúnaðarmenn skuli hafa farið út í svona undirskriftasöfnun án þess að leita álits á henni hjá honum fyrirfram. Véfréttastíll forsetans undanfarna mánuði hefur svo haft það í för með sér að enginn hefur þorað að segja af eða á um framboð. Svo virðist sem enginn alvöru frambjóðandi muni þora að fara fram gegn honum bjóði hann sig fram.

Og ekki bætir úr skák sú óvissa sem ríkir varðandi blessaða stjórnarskrána. Er við nú kjósum forseta vitum við eiginlega ekki hvernig forseta við erum að kjósa. Við vitum nákvæmlega ekkert um það hvaða hlutverk honum verður falið í nýrri stjórnarskrá sem vonandi lítur dagsins ljós fyrir sjötugs afmæli lýðveldisins árið 2014. Því finnst manni ef til vill hyggilegast ef forseti til dæmis byði sig fram nú en héldi þeim möguleika opnum að segja af sér embætti eftir tvö ár þegar ljóst verður hvert hlutverk nýs forseta verður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband