11.12.2011 | 12:40
Peningahyggja
Dagskrárgerðarmaður einn á Rás 2 sagði í gær milli laga að senn liði nú að jólum og því þyrfti að skjóta inn auglýsingum. Mikið óskaplega fannst manni þetta eitthvað dæmigert fyrir hugsanagang þjóðarinnar nú í desember. Það er nefnilega talið lífsnauðsynlegt að halda upp á fæðingu mesta mikilmennis sem sögur fara af með því að kaupa, eyða og spreða sem aldrei fyrr. Þetta þykir sýna þeim manni sem velti um borðum víxlaranna tilhlýðilega virðingu. Peningahyggja þjóðarinnar og reyndar heimsins alls kemur aldrei betur í ljós en á aðventunni. Á fólki dynja auglýsingar um hitt og þetta sem sé nauðsynlegt að gefa í jólagjöf. Þó er það nú svo að líklega er það þessi peningahyggja sem er að fara með efnahag heimsins til fjandans. Almenningur er látinn greiða upp skuldir auðmanna sem sumar hverjar voru reyndar aldrei til því menn bjuggu til peninga sem engar innistæður voru fyrir, létu bankana prenta fyrir sig ógrynni af seðlum eða jafnvel bara ýta á einhverja tölvutakka svo peningar yrðu til. Og þessum gervipeningum var spreðað út um heiminn.
En bólan hlaut að springa áður en yfir lyki. Ísland var fyrst í röðinni, hinir komu á eftir. Nú talar Steingrímur um að kreppunni sé að ljúka hér en einhvern veginn hefur maður það á tilfinningunni að þessi kreppulok séu aðeins drifin áfram af gervilánsfé til aukningar á neyslu millistéttarinnar. Aldraðir, öryrkjar og einstæðar mæður sitja í sömu súpunni norpandi fyrir utan hjálparstofnanirnar í von um einhvern smá mola úr hendi þeirra sem alltaf mega sín betur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.