Afstæð mannréttindi

Enn á ný blossaði upp deilan milli forsvarsmanna kirkjunnar og mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur vegna reglna sem þar hafa verið settar um samskipti skóla og trúfélaga. Þó svo að í mörgu hafi þessar reglur verið mildaðar frá upphaflegum drögum þá hafa kirkjunnar menn enn þá ýmislegt við þær að athuga og mörg eru túlkunaratriðin sem óljós eru. Til dæmis bann við þátttöku skólanema í bænahaldi og trúarathöfnum á skólatíma sem sumir túlka sem svo að þarna sé meðal annars verið að úthýsa sjálfu Faðir vorinu.

Ja, mikill er máttur siðmenntar orðinn ef hann er nú farinn að geta úthýst sjálfu Faðir vorinu sem maður hélt að væri það rótfastasta af öllu rótföstu. Og segja má að þessi tilhneiging borgaryfirvalda til afhelgunar sé að nokkru leyti einhvers konar andóf gegn almennu, félagslegu viðhorfi þjóðarinnar. Þessa sér alveg sérstaklega stað einmitt núna þegar jólin nálgast. Jólin eru svo óaðskiljanlegur hluti mannlífs hér á norðurhjara með ljósi sínu, friði og gjöfum. Manni finnst einhvern veginn að það væri nær að mannréttindaráðið fjallaði um réttindi þeirra barna sem svipt eru þeirri gleði sem undirbúningi jólanna fylgir vegna trúarskoðana foreldranna. Ég hef heyrt harmleiki, til dæmis af börnum Votta Jehóva sem hafa verið útilokuð frá litlu jólunum og jólaskreytingum. Það getur vel verið að jólin séu heiðin hátíð að uppruna en kirkjuþingið í Nikeu ákvað að þessi hátíð skyldi líka verða minningarhátíð um fæðingu Krists og sem slík hefur hún fest í sessi í hinum kristna heimi. Biblían segir ekkert um það hvort að jólin séu heiðin eða ekki, þau voru einfaldlega ekki til áður en Biblían var rituð.

Þetta ættu þessir mannréttindaforkólfar að hugsa um þegar þeir skammta mannréttindin á þennan hátt. Hér er ekki um einhver réttindi foreldra að ræða heldur réttindi barna til að njóta óhefts frelsis til að gleðjast, halda helgi og vera upplýst um öll heimsins trúarbrögð. En mannréttindi eru víst líklega afstæð og ekki hin sömu fyrir alla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband