Innfluttir tyllidagar

Í gær sunnudaginn 13. nóvember var svokallaður feðradagur. Ekki eru nema þetta tvö til þrjú ár síðan maður fór að heyra um þennan dag á Íslandi en hann mun víða vera til erlendis. Man ég til dæmis eftir honum frá námsárunum í Frakklandi þegar stöðugt glumdu í útvarpsstöðvunum auglýsingar sem augljóslega beindust að litlu krílunum til að gefa pabba einhverja smá gjöf. Ég spurði um þennan dag og var tjáð að upphaf hans væri líklega að leita til Vhicy stjórnarinnar, leppstjórnar Þjóðverja í Frakklandi sem að hætti margra hægri stjórna vildi mjög upphefja fjölskyldugildin. Einhverjir vilja meina að hér á landi sé feðradagurinn eitthvað karlamótvægi við mæðradaginn hvað jafnrétti varðar. Þessi röksemd heldur varla, það er í raun ekkert til sem heitir réttur feðra eða mæðra heldur er það réttur barnanna að foreldrarnir sjái fyrir þeim.

En feðradagurinn er svo sem ekki eini tyllidagurinn sem svona hefur verið fluttur inn. Á síðustu árum höfum við séð birtast hrekkjavökuna, Valentínusardaginn og ýmsa fleiri svona daga sem flestir koma frá Ameríku. Nú er það svo sem ekkert nýtt að Íslendingar flytji inn tyllidaga og sumir þeirra hafa orðið rótgrónir til dæmis öskudagurinn, 1. maí og svo auðvitað allir hinir kirkjulegu helgidagar sem voru þó mun fleiri í kaþólskri tíð en eru margir horfnir. Þó er það svo að jólin eru líklega ekki innflutt hátíð heldur hafa þau verið alltaf til meðan germanskra þjóða sem sólstöðuhátíð. Það var ekki fyrr en miklu seinna sem kirkjan setti fæðingardag Krists á jólin.

En mjög marga séríslenska tyllidaga eigum við ekki. Séríslenskir tyllidagar eru sennilega ekki nema fjórir eða fimm. Sumardagurinn fyrsti, Þjóðhátíðardagurinn, konudagur og bóndadagur og hugsanlega frídagur verslunarmanna. En þegar allt kemur til alls þá eigum við sennilega nóg af tyllidögum og frídögum, líklega er ekki ástæða til að flytja fleiri inn að kröfu verslunarstéttarinnar.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband