13.11.2011 | 20:53
Spítalalíf!
Nokkuð óvenjuleg umræða var í Silfri Egils nú síðdegis í dag ekki síst í ljósi þess að báðir þátttakendurnir voru reykvíkingar og annar meira að segja talsmaður íbúasamtaka. Fram að þessu hefur öll umræða snúist um það hversu mikið hagræðing og sparnaður yrði af framkvæmd þessari en þarna kom það fram að ekkert virðist alveg eins og það sýnist. Manni dettur jafnvel í hug að allir fræðingarnir sem um málið hafa vélað hafi þarna verið í svipuðu hlutverki og Sölvi Helgason þegar hann reiknaði barnið í konuna, en þeir hinir sömu sérfræðingar eru líka að reyna að reikna Vaðlaheiðargöngin út af kortinu. Vera má að mikil hagræðing náist með þessum skýjakljúf við hringbrautina og meðfylgjandi byggingum en kostnaðurinn verður líka mikill, sagður 50 milljarðar við fyrsta áfangann en allir vita að hann getur þess vegna losað 150 milljarða samanber t.d. Hörpu sem byrjaði í 6 milljörðum en er nú í tæpum 28 og verkinu ekki fulllokið. Þá má auðvitað nefna það að þarna er um að ræða skipulagsslys að demba slíku stórvirki ofan á þétta byggð. og þarna verður einnig um að ræða umhverfislegt stórslys ef ekki hamfarir. Blessaðir sjúklingarnir anda að sér lífshættulega menguðu lofti ef þeir komast þá á sjúkrahúsið í tæka tíð fyrir umferðarteppu. Og fari flugvöllurinn úr Vatnsmýrinni verðum við að vona að menn fari þá ekki að fá hjartaáföll eða lenda í alvarlegum slysum hvað þá náttúruhamförum á öðrum stöðum á landinu. En með 50 milljörðum króna má gera heillmikið í heilbrigðismálum ef vilji stendur til þess.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.