18.10.2011 | 21:03
Hremmingar Húsvíkinga
Ólöf ríka var merkileg kvenpersóna í íslenskri miðaldasögu. Þegar eiginmaður hennar var drepinn af erlendum ójafnaðarmönnum er mælt að hún hafi sagt hin fleygu orð: "Eigi skal gráta Björn bónda heldur safna liði."
Þessi frásögn kemur upp í hugann núna þegar maður hugsar til þeirra hremminga sem ganga yfir Húsvíkinga þessa dagana. Hremmingar sem byrjuðu með niðurskurði á sjúkrahúsinu, brotthvarfi Reðursafnsins, áhugaleysis Alcoa að viðbættu áhugaleysi Ögmundar innanríkisráðherra sem má ekkert vera að því að svara Kínverjanum sem vill kaupa Grímsstaði. Og líklegt er að næst verði það Vaðlaheiðargöngin sem blásin verði af og hugsanlega mun svo Náttúrufræðistofnun koma og taka Hvalasafnið suður í hagræðingarskyni. En Húsvíkingar, öfugt við Ólöfu ríku, taka að gráta Björn bónda. Nú væla þeir utan í ríkismömmu og biðja hana að kyssa á bágtið í stað þess að safna liði innan svæðisins og innan allrar landsbyggðar til að hefja uppreisn gegn sterku Reykjavíkurvaldinu. Því miður eru blessaðir þingmennirnir úr kjördæminu ekki góðir málsvarar þeirra. Að það skuli hlakka í sjóara frá Ólafsfirði þegar þjónusta og atvinnutækifæri eru tekin frá samherjum hans rétt fyrir austan.
Það er kominn tími til að þingmenn landsbyggðarinnar komi í veg fyrir að landið sporðreisist og verði gert að einum allsherjar þjóðgarði og friðlandi handa einhverjum skrifstofublókum fyrir sunnan.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.