Enn af biskupsmáli

Ekki er enn alveg farið að slota umræðuóveðrinu um hinn meinta perra á biskupsstóli. Þó nokkuð sé síðan málið kom upp er þjóðin enn sem lömuð yfir fréttunum og vitaskuld er allt traustið sem menn báru til kirkjunnar löngu fokið út í veður og vind. Núverandi biskup þorir ekki að opna munninn, hugsanlega af ótta við hneyksli og virðist ekki á þessari stundu líklegur til að taka pokann sinn. Gaf út ásamt vígslubiskupum fallega orðaða yfirlýsingu í dag sem margir munu þó vafalaust líta á sem yfirklór ef ekki fylgja athafnir.

Segja má að það muni verða erfitt fyrir þjóðkirkjuna að endurheimta traustið aftur. Hugsanlega þarf kirkjan að endurmeta stöðu sína í þjóðfélaginu og hreinsa til. Vel má hugsa sér að stjórnsýsla hennar verði einfölduð og báknið minnkað. Þannig er það spurning hvort ekki megi að mestu leyti leggja niður embætti biskups Íslands og fela störf hans vígslubiskupum sem tækju þá upp titilinn Skálholts- og Hólabiskup og yrðu þannig tengsl við söguna efld með fullri endurreisn biskupsstólanna. Vel mætti jafnvel hugsa sér að Guðfræðideild Háskóla Íslands flyttist einnig á annan hvorn biskupsstólanna. Af embætti biskups Íslands yrði ekkert annað eftir en heiðursstaða sem hefði lítið annað en táknrænt gildi og yrði meginverkefni hans að annast vígslu hinna nýju biskupa. Þá er í rauninni líka spurning um það hvort Þjóðkirkjan í sinni núverandi mynd eigi að vera ríkiskirkja. Sú spurning er áleitin hvort ríkið eigi að styðja þannig eitt trúfélag framyfir öll önnur.

Svo þversagnakennt sem það er þá finnst manni samt nokkuð langt gengið hjá Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur að amast við trúfélögum í skólum. Því þó að perrar og barnaníðingar slysist til að verða biskupar þá svertir það í sjálfu sér ekki kjarna kristinnar trúar um náungakærleika, jöfnuð og mannhelgi.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband