Safnað fyrir blokk

Fyrir tuttugu og tveimur árum efndu mænuskaðaðir til landssöfnunar í því skyni að byggja blokk fyrir sig í Reykjavík. Mun þetta hafa verið í fyrsta skipti sem efnt var til slíkrar landssöfnunar í sjónvarpi. Síðast liðið föstudagskvöld var svo leikurinn endurtekinn..... nú til að safna peningum upp í viðhald á þessari hinni sömu blokk sem auðvitað er farin að láta á sjá eftir tuttugu og tvö ár..... og það svo að menn töluðu um að viðhaldið gæti farið hátt upp í að kosta 60 milljónir.

Nú gefur auga leið að þeir sem hafa orðið fyrir mænuskaða þurfa á sérhönnuðu húsnæði að halda en spurningin er hvort það sé ekki svolítið gamaldags hugsunarháttur að safna öllum einstaklingum með sömu fötlun í eina blokk á sama landssvæðinu. Og það er hreint ekki víst að Reykjavík sé endilega besti staðurinn fyrir fatlað fólk. Þjónusta við fatlaða er nefnilega ekkert endilega þróaðri í Reykjavík en annars staðar enda samfélagið það fjölmennt að einstaklingurinn hverfur í fjöldann og þjónustan verður ef til vill dálítið vélræn. Maður spyr sig hvort ekki væri rétt af samtökunum að selja blokkina og kaupa sérhannaðar íbúðir, eða láta byggja þær vítt og breitt á stöðum þar sem eru góðir endurhæfingarspítalar og fullkomin þjónusta við fatlaða nú eftir að málefni þeirra flytjast til sveitarfélaga um áramót. Að vísu verður maður að taka þennan flutning með fyrirvara, mörg lítil sveitarfélög á landsbyggðinni geta ekki komið upp viðunandi þjónustu. Annars staðar er hún til mikillar fyrirmyndar eins og á Akureyri þar sem sveitarfélagið hefur annast þessa þjónustu um nokkurra ára bil. Sennilega hefði það fyrirkomulag verið betra að þessi þjónusta væri í höndum svæðisbundinna stjórna og veitt út frá þjónustubyggðakjörnum. Allavega þá hlýtur stefnan í málefnum fatlaðra í framtíðinni að vera sú að þeir fái að búa í heimabyggð sinni eða þá í þeim þéttbýliskjarna sem er á þeirra þjónustusvæði ef þeir svo kjósa, í stað þess að þeim sé öllum smalað í kaldranalegar blokkir í Reykjavík..... keyptar og viðhaldið með væmnum landssöfnunarþáttum í sjónvarpi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband