Guðmundur og Gnarr

Tímamót eru að eiga sér stað í stjórnmálum á Íslandi. Nýtt og nokkuð óvænt bandalag er að myndast inni á hinni pólitísku miðju landsins sem er að fá til liðs við sig nokkra aðila sem meðal annars skrifa handrit að nýjustu sjónvarpsseríunni... Þingvaktinni. Það vakti nokkra athygli þegar Guðmundur Steingrímsson yfirgaf Framsóknarflokkinn sem hann var tiltölulega nýgenginn í og ákvað að efna til bandalags við frjálslynda miðjumenn, Evrópusinna og óánægða framsóknar- og sjálfstæðismenn. Þess vegna virkar þetta bandalag við Þingvaktarmanninn dálítið einkennileg viðbrögð, það er eins og manni finnist svo sem þarna hafi hann slegið falskan tón á nikkuna. Þetta er nefnilega ekkert voðalega klókt. Þó svo að svona óánægjubandalag kunni að fá slatta af þingmönnum og geti jafnvel gegnt lykilhlutverki við stjórnarmyndun þá kennir sagan manni að svona framboð lifa ekki nema í eitt, mesta lagi tvö kjörtímabil. Hvort sem þau heita Bandalag jafnaðarmanna, Kvennalistinn, Þjóðvaki eða Borgaraflokkurinn. Öll svona framboð hafa geispað golunni eftir eitt kjörtímabil eða tvö þar sem þau hafa ekki haft neina afgerandi stefnu eða lím til að halda pólitísku lífi.

Ef Guðmundur hefði aftur á móti haldið sig við upphaflega áætlun hefði hann hugsanlega getað komið á fót afli sem í dag er ekki til staðar... frjálslyndum miðjuflokki, Evrópusinnuðum flokki og alþjóðlegum sem næði til sín hluta Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Samfylkingar og jafnvel einhverjum Vinstri grænum sem líður illa í þeim þröngsýna þjóðernishyggjuflokki sem á sér þann draum að þjóðin búi í torfkofum, borðandi hundasúrur og glápi á norðurljósin í öruggu skjóli frá heimsins vígaslóð.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband