5.9.2011 | 22:31
Spítalabruðl
Það stendur til að byggja nýjan Landsspítala. Áætlað er að framkvæmdin kosti 40 milljarða, það er að segja bara fyrsti áfanginn. Heildarkostnaður er áætlaður um 100 milljarðar og eins og öllum er kunnugt þá mun sú áætlun ekki standast. Það hefur aldrei gerst að kostnaðaráætlun hafi staðist við byggingar á Íslandi. Við þetta má bæta einhverjum kostnaði til dæmis við umferðarmannvirki því þótt sumir haldi því fram að þau mál muni leysast með auknum almenningssamgöngum þá vitum við það að slíkt gerist ekki..... erfitt er að kenna gömlum hundi að sitja. Það vekur athygli að á sama tíma og þetta er auglýst þá auglýsir Endurmenntun Háskóla Íslands námskeið í faglegri norsku fyrir heilbrigðisstéttir.
Einnig vakti athygli um daginn frétt um að lækningatæki Landsspítalans væru flest orðin gömul og ónýt og jafnvel sprautunálarnar ryðgaðar. Nú vaknar sú spurning hvers vegna á að reisa fínan lúxusspítala yfir ónýt lækningatæki og ryðgaðar sprautunálar eða láglauna heilbrigðisstarfsfólk sem ekki fær vinnu í Noregi. Sighvatur Björgvinsson kom með nokkuð góða skýringu á þessu í viðtali á dögunum. Þar útskýrði hann að ef til vill væri farið út í þetta spítalabruðl fyrir þrýsting frá verktökum sem ekki hafa haft mikið umleikis að undanförnu, hér má einnig bæta við hönnuðum og arkitektum.
Nú má benda hér á að sitthvað má gera í heilbrigðismálum fyrir 4o milljarða. Hækka má verulega laun heilbrigðisstarfsfólks svo það hlaupi ekki allt til Noregs, kaupa má nothæf lækningatæki á sjúkrahús landsins og efla verulega sjúkrahúsin á landsbyggðinni, ekki síst hér á Norðausturlandi í ljósi þeirrar uppbyggingar sem hér kann að verða vegna olíuleitar og lúxusferðamennsku á Hólsfjöllum. Það má segja að bráðasjúkrahús fyrir þá fínu ferðalanga sem þar gista, staðsett í Reykjavík, sé helst til langt í burtu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.