Draumaland borgarstjórans

Mikið óskaplega eiga Reykvíkingar skemmtilegan borgarstjóra. Jón Gnarr virðist vilja gera allt skemmtilegt sem hann snertir. Það nýjasta eru skólarnir. Skólarnir eru svo óskaplega leiðinlegir að við það verður ekki unað og auðvitað verður að bylta skólakerfinu til að gera þá skemmtilegri. Og fyrirmyndin er fundin..... afnemum skólaskylduna svo að blessuð börnin þurfi ekki að mæta ef að skólarnir eru leiðinlegir og tökum upp bandaríska kerfið þar sem skólarnir eru svo frjálsir. Jú, afleiðingin..... hún verður náttúrulega sú að það verða til nokkrir dýrir, vel búnir og fagmannlegir einkaskólar og síðan allmargir lélegir, niðurníddir grunnskólar reknir af ríki og/eða sveitarfélögum þar sem börn undirstéttarinnar munu koma og fá ítroðslu að því lágmarki sem nauðsynlegt mun þykja. Eins og við vitum þá er árangurinn af bandaríska kerfinu sá að megnið af Bandaríkjamönnum eru illa upplýstir fjölmiðlaneytendur sem varla skeyta um nokkurn hlut fyrir utan bæ sinn, bæjarhluta eða fylki. Heimurinn er ekki til. Og við skulum ekki tala um unglingana sem alla jafna mæta vopnaðir í skólann.

Heimakennsla er svo annar hlutur sem hugnast Jóni Gnarr. Heimakennsla er mikið þjóðfélagsvandamál í Bandaríkjunum. Dæmi eru um börn sem kennt er heima af foreldrum sem eru tengdir öfgahreyfingum og sértrúarhópum þannig að heimakennslan verður í reynd heilaþvottur þar sem börnin kynnast engu nema hinni þröngu heimssýn foreldranna. Þau hafa til dæmis oft ekki heyrt minnst á hluti eins og þróunarkenninguna eða það að jörðin sé hnöttótt. Sjálfsagt eru mjög margir af kjósendum Teboðshreyfingarinnar sprottnir úr þessum jarðvegi.

Það getur vel verið að skólarnir okkar séu ekkert voðalega skemmtilegir, þeir búa þó við nokkurn veginn félagslegan jöfnuð og lágmarks fagmennsku. Bandaríska frjálsræðið tryggir slík gæði ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband