10.8.2011 | 20:41
Skattur á gengisgróðann
Ein frumlegasta hugmyndin sem komið hefur fram um skattamál að undanförnu er tillaga sem Lilja Mósesdóttir hagfræðingur setti fram á Sprengisandi Bylgjunnar síðast liðinn sunnudag. Þar lagði hún til að lagður yrði á sérstakur skattur á útflutning. Í rauninni er þetta hið sama og að leggja skatt á gengisgróða eða gengismun þann sem útflutningsatvinnuvegirnir hafa búið við síðustu mánuði á sama tíma og þjóðin hefur að stórum hluta lapið dauðann úr skel, að miklu leyti bæði beint og óbeint út af hinu lága gengi.
Þessi tillaga virkar við fyrstu sýn dálítið fáránleg enda illa tekið af eigendum útflutningsatvinnuveganna eins og vænta mátti. En ef til vill er hún ekki eins vitlaus og ætla mætti. Menn hafa ekki enn viljað viðurkenna það að stærstu efnahagsvandamál Íslendinga í dag eru hinu lága gengi krónunnar að kenna. Jú útflutningsatvinnuvegirnir græða og græða vel en sá gróði kemur þjóðarbúinu ekki að neinu gagni. Peningarnir liggja bara í sjóðum í bönkum án þess að þeir séu sendir í nokkra vinnu og afsökunin einhver óvissa. Og meðan útflutningsfyrirtækin safna krónum eru þessar krónur verðlausar hjá lágtekjufólki sem ekki má eiga gjaldeyri samkvæmt lögum. Gjaldeyririnn á að liggja óhreyfður hjá auðmönnum og á sama tíma étur verðtryggingin allt upp.
Önnur tillaga Lilju virkar í fyrstu dálítið hjákátleg en hún er sú að afnema verðtrygginguna og láta verðbólgu éta upp skuldirnar. Sama má reyndar einnig gera með því að verðtryggja laun og væri ansi þægileg leið til að koma okkur út úr þessum vítahring. Kostnaðurinn gæti orðið 100% verðbólga og ofþensla en erfitt er að sjá hvernig hægt er að fara aðra leið til að forða öllu þjóðfélaginu frá allsherjar gjaldþroti.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.