29.5.2011 | 21:00
Vetur á Sýrlandi
Það er vetur á Sýrlandi. Gömlu góðu hipparnir norpa ekki lengur einhversstaðar í bláum skugga reykjandi sitt gras, heldur eru þeir flestir orðnir kótelettukarlar sem fara með fjölskylduna á bæjarhátíðir eða fótboltamót. Og dópið er ekki lengur eitthvað dularfullt og spennandi. Mikla athygli hefur undanfarna daga vakið umfjöllun Kastljóss um unglinga og svokallað læknadóp en áður var læknadóp eiginlega eitthvað sem maður tengdi aðallega við eldri konur, með hillurnar hjá sér troðnar af allskonar lyfjaglösum. Frásagnir Jóhannesar Kristjánssonar af örlögum dóttur hans eru nöturlegar, en hinu má ekki gleyma að hugsanlega hefur hann og harmleikur hans verið notaður af Kastljósi í þeirri miskunnarlausu samkeppni sem Ríkisútvarpið er í við fyrrum vinnustað Jóhannesar. Þar sem þessar stöðvar keppa til dæmis hart á harðsvíraðasta auglýsingamarkaði landsins og æsifréttir selja. Maður skilur vel baráttu Jóhannesar en tilfinningin er samt einhvernvegin sú að hann sé svolítið misnotaður. Til dæmis þá talar hann sama mál og meðferðarbransinn í stað þess að tala við krakkana beint og milliliðalaust, á máli sem þau skilja. Að sprauta sig með morfíni er ekki það sama og að fikta við að reykja eina jónu eða fá sér eitt bjórglas. Þetta læknadóp er lífshættulegt, svo einfalt er það og þetta dóp tengist engum hugsjónum eða hugarútvíkkun eins og menn sögðu dópið í gamla daga gera. Veturinn er lagstur að á Sýrlandi og á þessum vetri munu einhverjir verða úti.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.