Litli heimsendir

Bandaríski uppgjafaverkfræðingurinn Camping spáði heimsendi klukkan 6 síðast liðið laugardagskvöld. Að sjálfsögðu rættist þessi spá ekki, að hans eigin sögn vegna þess að hann gerði villu í útreikningi sínum. Vonandi gerði hann ekki viðlíka villur í verkfræðistörfum sínum. En líklega hefur hann engar fréttir haft af því að einmitt á þessum sama tíma hófst eldgos á Íslandi svo dimmt varð um hábjartan dag í nokkrum byggðalögum og eldi og brennisteini rigndi.

Já, við fengum smjörþefinn af heimsendi á Íslandi um helgina og auðvitað kom uppákoman almannavörnum langmest á óvart af öllum enda var búið að vera þarna eldgos í fyrra og engin sérstök von á öðru strax. En samt varð það strax og við tóku aðgerðir í anda "þetta reddast" hugmyndafræðinnar sem að sönnu hefur ýmsa kosti og getur oft orðið til þess að bjarga í mikilli neyð. En "þetta reddast" hugmyndafræðin hefur þann ókost að hún horfir ekki til framtíðar og það var ef til vill þess vegna sem hrunið varð. Við eigum svo óskaplega erfitt með að hugsa fram í framtíðina. Það er til dæmis ljóst að eitthvað þarf að skipuleggja til framtíðar varðandi þann þátt að virkasta eldgosasvæði landsins er í túnfæti mesta þéttbýlis þess og helstu matarkistu þessa þéttbýlis. Við vitum að þarna eiga eftir að koma stór eldgos áfram. Katla gamla er löngu komin á tíma og Lakagígar eru án efa ekki dauðir. Hætt er við að mikil neyð kynni að skapast á suðvesturhorninu ef ný móðuharðindi yrðu. Þess vegna þarf til dæmis að skipuleggja öflugan landbúnað og byggð í öðrum héruðum til að standa undir framleiðslunni ef neyðarástand skapaðist á Suðurlandi. En slíkur framtíðarhugsunarháttur virðist vera svo óskaplega fjarri okkur Íslendingum. Þess vegna má alltaf búast við að hlutirnir fari úr skorðum og lítill heimsendir verði í hverju eldgosi.     

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband