6.4.2011 | 22:38
Hin ýmsu fjölmiðlafár
Margt fleira en hið sívinsæla Icesave hefur rekið á fjörur íslenskra fjölmiðla að undanförnu. Óhug sló að þjóðinni þegar fréttist af 7 ára dreng sem misnotaður var af föður sínum og frænda. Fréttir bárust af mönnum sem vildu kaupa sér íslenskan ríkisborgararétt um leið og ungri stúlku var neitað um dvalarleyfi. Mengun af ýmsu tagi hefur borið á góma og svo eru auðvitað þessar venjulegu fréttir af hópslagsmálum og líkamsárásum.
Það vekur dálitla athygli hversu mjög fjölmiðlar eru farnir að spila á tilfinningar fólks. Oft á tíðum verða tiltölulega smávægilegir atburðir upphafið að miklu fjölmiðlafári og virðist manni á stundum sem þar ráði nokkur tilviljun hvað verður að stórmáli. Það getur orðið að stórmáli ef að maður á Reykjanesi þarf að fá nýtt hjarta eða að Gunni hafi verið geðveikur. Þegar það verður engin stórfrétt að fjórir útigangsmenn verða úti í henni Reykjavík eða að hjartasjúklingur deyi af því að hann kemst ekki nógu fljótt í aðgerð. Þetta er allt svo miklum tilviljunum háð og stundum er æsingurinn svo vægt sé til orða tekið nokkuð mikill. Samanber Becromal málið þegar fréttir bárust af því að trillukarlar væru farnir að veiða lútfisk á Eyjafirði. Kastljósið ræddi lítið við heimamenn en þess meira við einhverja snoppufríða stelpu á Umhverfisstofnun fyrir sunnan. En tilfinningin sem lögð var í fréttina var mikil. Þetta á einnig við um díoxín-mengunina við Ísafjörð. Menn hafa miklar samúð með bóndanum sem þarf að farga öllum sínum skepnum en engum dettur í hug að deila á heilaga Umhverfisstofnun fyrir afglöp sem hún framdi.
Sennilega er undirrót þessarar tilfinningafjölmiðlunar sú grimma samkeppni sem fjölmiðlar á Íslandi heyja. Væri nú ekki ráð að slíðra sverðin og taka sig saman um að gera fjölmiðlun á Íslandi æsingalausari, vandaðri og jafnframt ábyrgari og dýpri?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.