21.7.2010 | 18:03
Félagsleg hugsun
Börnin fá mat, en foreldrarnir steina, þessar kunnu ljóðlínur skáldsins frá Fagraskógi komu ósjálfrátt upp í hugann við að hlusta á viðtal við konu eina sem var að segja frá ástandinu á heimili hennar. Ef ég man rétt þá var hún einstæð móðir og öryrki í þokkabót. Tekjur hennar voru svo naumar að hún sagðist oft ekki eiga fyrir mat þó hún reyndi að láta börnin ekki svelta. Fyrir nokkrum vikum bar það við að lítil stúlka slasaðist alvarlega í andliti þegar hún datt á hjóli. Ekki fékkst skaðinn bættur vegna þess að meiðslin ekki á réttum stað á andlitinu. Þessi tvö dæmi eru dálítið lýsandi fyrir ástandið í þjóðfélaginu og fyrir þann skort sem hér virðist alger á félagslegri hugsun. Félagslega kerfið er heill frumskógur sem virðist hannaður fyrst og fremst fyrir þá sem atvinnu hafa af því en ekki þá sem þurfa að nota það! Þessi hugsunarháttur gegnsýrir allt þjóðfélagið. Skattar eru hér afar háir, hins vegar fær fólk ekki mikið fyrir þá. Gagnstætt því sem gerist á Norðurlöndum, þar greiða menn vissulega mjög háa skatta en fá líka miklu meira í staðinn en hér. Skattfé Íslendinga er nefnilega óskaplega asnalega nýtt, menn byggja mannvirki útum hvippinn og hvappinn. Byggja jarðgöng, verslunarmiðstöðvar eða spítala sem engin þörf er á en maðurinn sjálfur er skilinn út undan og einhvernvegin smitar þessi skortur á félagslegri hugsun út frá sér. Að sönnu þá stendur þjóðin saman sem einn maður þegar náttúruhamfarir verða en þegar þeim linnir byrjar hver að ota sínum tota og hugsar ekkert um samfélagslega ábyrgð. Það getur vel verið að slökkviliðs og sjúkraflutningamenn séu ekkert of sælir af launum sínum, samt sýnir það ekki mikla samstöðu með fólkinu að þeir skuli rjúka í verkfall og ekki heldur hjá sveitafélögunum að reyna ekki að koma til móts við kröfur þeirra.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.