20.5.2010 | 22:00
Gleraugnabyltingin
Einhver frammámaður í öryrkjabandalaginu kom í fjölmiðla og fór að tala um að nú skyldi efnt til hjólastóla og hækjubyltingar. Í tilefni nýlegra ummæla félagsmálaráðherrans okkar um skerðingu fjár til velferðamála einnig má bæta því við að allt eins má hér tala um gleraugnabyltingu, göngugrindarbyltingu eða hvað annað. Skírskotunin er sú sama, hún er auðvitað til búsáhaldabyltingarinnar sem auðvitað át börnin sín hvort sem þau hétu Hreyfing, Borgarahreyfing eða eitthvað annað. Kveikjan að hinni boðuðu byltingu hinna fötluðu er ekki ólík. Sú klíka glæpamanna og skrípakarla sem ráðið hafa þjóðfélaginu undanfarin ár stálu auðvitað líka þeim peningum sem ætlað var í málefni fatlaðra. Félagsmálaráðherra er í raun nokkur vorkunn þó hann þurfi að skerða þessi framlög. Við Íslendingar erum nú farnir að taka við skipunum frá hinum svokallaða Alþjóðagjaldeyrissjóði sem hefur það að trúaratriði að upphaf og endir allra vandræða í efnahagsmálum sé að leita í ríkisfjármálum. Ríkjum sem þiggja hjálp er skipað að draga saman í öllu þörfu sem óþörfu án nokkurra skilyrða um kerfisbreytingu eða hreinsanir. Þannig er þeim sem kunnugt er t.d. Grísku þjóðinni harðlega refsað fyrir afglöp og spillingu sem þar hefur viðgengist í áratugi og eins á nú að refsa fötluðum Íslendingum fyrir glæpi og heimskupör sem þeir eiga engan þátt í. Á meðan fatlaðir á Íslandi þurfa ef til vill að lepja dauðann úr skel heima á Íslandi situr Siggi út í London og þorir ekki heim.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.