29.4.2010 | 21:50
Lottóvinningur
Þær hamfarir sem gengið hafa yfir landið að undanförnu af völdum manna og náttúru. Hafa að vissu leyti komið eins og lottóvinningur fyrir Akureyri. Fyrir það fyrsta þá varð kreppan hér ekki eins djúp og t.d. á höfuðborgarsvæðinu sumpart einfaldlega vegna þess að hér varð eiginlega aldrei nein þensla, að vísu komu hingað nokkrir jeppar og flatskjáir en lítið meira. Hins vegar blómstraði hér ferðaþjónusta með tilheyrandi verslun og veitingarekstri. Einfaldlega vegna þess að þjóðin var sett í átthagafjötra lækkandi launa og ónýtrar krónu. Að viðbættu því að öll skíðasvæðin syðra lokuðu þannig að aumingja foreldrarnir fyrir sunnan urðu að senda börnin sín á skíði til Akureyrar í stað Austurríkis eða Ítalíu og upp hófst af því mikill grátur og gníst tanna í fjölmiðlum. Svo kom bónusvinningurinn, það fór að gjósa í Eyjafjallajökli og nokkuð sem aldrei hafði gerst fyrr var staðreynd. Flugvellir lokuðu vítt og breytt um Evrópu, þar á meðal í Reykjavík og Keflavík en Akureyrarflugvöllur var lengst af opinn og allt í einu var Akureyri orðin nafli alheimsins á Íslandi. Að sjálfsögðu högnuðust margir á þessu t.d. heyrði maður af litlu hreingerningafyrirtæki sem græddi vel á því að þrífa flugvélar og einhverjir hafa líka grætt á því að hýsa allt þetta starfslið sem kom að sunnan. Þannig hefur vafalaust komið nokkuð fjármagn í bæinn. Mest er þó umvert að allt þetta hefur beint athyglinni að þeirri aðkallandi framkvæmd að stækka flugstöðina á Akureyri. Það er ekki viðunandi lengur að þessi varavöllur sé bara kríli eins og sagt var í einum fjölmiðli. Akureyringar hafa hagnast vel þessa síðustu daga, nú er bara að halda vel á því sem fengist hefur og sýna ráðdeild og fyrirhyggju. Láta þetta fé ekki renna burt í aðra landshluta en þó ber okkur auðvitað siðferðilega skylda til að hjálpa því fólki af öllu megni sem orðið hefur fyrir tjóni og áþjón við það þegar náttúran tók völdin af mannfólkinu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.