10.3.2010 | 18:29
Skrautfjöður fallin
Ein helsta skrautfjöðrin í veitingaflóru Akureyrar er fallin. Eigendur veitingastaðarins Friðriks Fimmta hafa ákveðið að loka staðnum og segjast með því sýna ábyrðartilfinningu. Loka staðnum áður en skuldirnar verði þeim ofviða. Þessi staður hefur lengi verið stolt Akureyrar og verðugur fulltrúi íslenskrar matargerðar og er mikil eftirsjá af honum. Jónas matgræðingur Kristjánsson ýjaði að því í morgunútvarpi rásar 2 að svona staður gæti ekki þrifist á Akureyri þar sem hún væri bara þorp. Þeim hinum sama Jónasi skal bent á að hinn staðurinn sem hann nefndi Arnarhóll var ekki rekinn í smáþorpi og sé ekki hægt að reka svona dýran snoppstað í sjálfri Reykjavíkinni, þá er það sennilega hvergi hægt á Íslandi. Margar ástæður kunna að vera fyrir lokun Friðriks Fimmta og ekki endilega skortur á rekstrargrundvelli frekar en gerist og gengur með fyrirtæki í kreppunni. En svona staður finnst manni að þurfa að vera til í bæ sem kallar sig ferðamannabæ. Því miður hafa Akureyrarstofa og önnur apparöt sem ferðamálum bæjarins stýra ekki sinnt sem skyldi efnameiri ferðamönnum til að mynda ráðstefnugestum. Til þess ættu þó að vera mörg tækifæri ekki síst með tilkomu menningarhússins og framtíðar og heimsmiðstöðvar á sviði norðurslóðafræða. Það er ekki nóg að auglýsa að öll fjölskyldan finni eitthvað við sitt hæfi á Akureyri. Fjölskyldan er bara eitt samsafn af einstaklingum slík samsöfn eru miklu fleiri og fjölbreytilegri og þau gefa mörg meira af sér.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.