10.3.2010 | 18:15
Eftir Neijið
Um síðustu helgi var settur á svið farsi í leikhúsi sem Ísland nefnist sem sjálfur Dario Fo hefði getað verið fullsæmdur af. Stór hluti þjóðarinnar arkaði á kjörstað til að segja nei án þess að vita almennilega við hverju var verið að segja þetta nei. Hér skulum við ekki ræða aðdraganda og framkvæmd atkvæðagreiðslunnar né heldur þátt forseta vors. Sem þessa dagana stendur nú helst í því að móðga frændur vora Norðmenn. Á sunnudagsmorguninn kom þó í ljós tilgangur stjórnandstöðunnar við öllu bröltinu. Hann var auðvitað að veikja ríkisstjórnina og þá ekki síst Steingrím og á tímabili leit svo út sem bragðið myndi heppnast og maður var eiginlega farinn að dást að kænsku stjórnarandstöðunnar. Því allt leit út fyrir að stjórnin springi og boðað yrði til kosninga. En dæmið var ekki alveg rétt reiknað, þegar til átti að taka sá stjórnarandstaðan að það var bara ekkert spennandi að etja landinu út í kosningar jafnvel þótt slíkt kynni að skyggja á alla umræðuna sem verða mun þegar stóra ógnvekjandi skýrslan kemur út. Menn hafa ugglaust ætlað að reyna að drepa umræðuna um hana einhvernvegin á dreif. En skítblönk þjóðin þurfti að borga einar 200 milljónir aðgangseyri að farsanum og þó svo segja megi að eitthvað hafi komið í móti í formi túrisma þess sem þarna átti sér stað þegar fjölmiðlamenn Evrópu flykktust hingað til að berja þennan undarlega samsöfnuð Íslendinga augum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.