Færsluflokkur: Bloggar

Slökkt á geislabaugnum

Hún Jóhanna okkar er sjötug í dag. Hún hefur átt einkar farsælan en á stundum stormasaman feril sem stjórnmálamaður og nú hefur hún hugsanlega, í tilefni þessa afmælis, ákveðið að stíga til hliðar og slökkva á geislabaugnum. Eftir situr Samfylkingin hnípin í myrkrinu og veit ekki sitt rjúkandi ráð.

Jóhanna hefur verið svo óumdeildur leiðtogi að enginn hefur hugsað sér í alvöru að taka við. Margir minni spámenn eru tilkallaðir en enginn sterkur leiðtogi virðist útvalinn. Menn tala um Árna Pál ,sem reyndar hefur lýst yfir framboði, Katrínu Júlíusdóttur og jafnvel Dag B. Eggertsson. Guðbjartur virðist hafa dæmt sig úr leik með hinu fræga Landsspítalaklúðri sínu.

En sá leiðtogi sem veljast mun til forystu á erfitt verk fyrir höndum. Ljóst er að hver svo sem við stjórnvölinn stendur þá mun Samfylkingin tapa miklu í komandi þingkosningum. Að hætta núna og slökkva á geislabaugnum er einstaklega skynsamlegt hjá Jóhönnu. Þarna hættir hún á toppnum og tekur ekki þátt í þeirri niðurlægingu sem allar horfur eru á að Samfylkingin muni verða fyrir í komandi kosningum og það óverðskuldað af því að hún hefur þó að vissu leyti bjargað því sem bjargað verður. En það hefur svo sem gerst í kosningum víða í Evrópu að þeir sem reynt hafa að gera sitt besta hafa ekki hlotið lof að verðleikum og alls kyns populistar og ævintýramenn hafa náð völdum án þess að nokkuð hafi verið á bak við þá nema froða.


Jöfnuður

Menn tala mikið um jöfnuð í samfélaginu. Allt á að jafna og allir eiga að vera jafnir, eða svo er sagt. Ein hinna loðnu spurninga í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu er sú hvort jafna eigi atkvæðisréttinn.

Nú gefur það auga leið að auðvitað á hver maður að hafa sama atkvæði án tillits til búsetu hans, kynferðis eða efnahags. En við vitum að samt er atkvæðisrétturinn ekki jafn. Sumir hafa engan atkvæðisrétt vegna þess að þeir eru of ungir, þeir eru útlendingar og sums staðar vegna þess að þeir eru fyrrverandi refsifangar.

Í dag er atkvæðavægi misjafnt eftir búsetu en það er réttlætt meðal annars með því að búseta skapi ójöfnuð sem slík. Það gefur því auga leið að rétta leiðin til að afnema þetta misvægi er ekki að jafna atkvæðavægið eitt og sér heldur verður að jafna aðstöðuna samfara breytingunni. Þetta má gera á ýmsan hátt til dæmis með því að taka upp dreifstýringu á valdi, með skattaívilnunum, auknu fjármagni til landsbyggðar og ýmsum öðrum aðgerðum sem öllum verði beint í það að menn geti valið sér búsetu og verði ekki bundnir af einhverju misrétti. Sennilega yrði þá farsælasta leiðin sú að gera landið að einu kjördæmi og kjósa þingmenn hlutfallskosningu. Þó þannig að dreifbýlinu yrðu tryggð einhver þingsæti þannig að vitleysan frá stjórnlagaþingskosningunum endurtaki sig ekki þegar meirihluti kjörinna fulltrúa voru annað hvort gestir úr Silfri Egils eða búsettir í 101, nema hvoru tveggja væri.


Hið sjálfstæða lýðræði

Eftir um það bil þrjár vikur gengur þjóðin að kjörborði til að segja álit sitt á stjórnarskrárdrögum þeim sem búið er að klambra saman af stjórnlagaráði. Ekki hefur mikið farið fyrir kosningabaráttu enn sem komið er og virðast menn helst horfa til þess hversu þátttakan í kosningunum verður mikil. Það er meðal annars opinber stefna Sjálfstæðisflokksins að menn eigi að sitja heima og ekki greiða atkvæði. Að sönnu hefur hinn Vafningalausi formaður flokksins með fína nafnið nokkuð aðra skoðun á þessu sjálfstæða lýðræði. Hann ætlar að mæta á kjörstað og segja "Nei"

Þetta er að mörgu leyti miklu eðlilegri afstaða, að sitja heima er auðvitað það sama og að láta sig málið engu varða og fela öðrum ákvarðanatöku. Það er sama þó menn finni einhverja formgalla á atkvæðagreiðslunni og þó að finna megi á henni ýmsa galla, til dæmis frekar ónákvæmar spurningar, þá er hér um að ræða afar lýðræðislegt ferli. Örugglega er leitun að ríki þar sem jafn lýðræðislega hefur verið staðið að gerð stjórnarskrár en hér á Íslandi eftir hrunið. Þetta er ferli sem ekkert sjálfstætt lýðræði má eyðileggja.


Sending að sunnan

Það gengur mikið á í framsókn þessa dagana og þá ekki hvað síst hér í kjördæminu. Ungi þingmaðurinn frá siglufirði sem á sínum tíma vaknaði upp á þingi hefur ákveðið að hætta og flestir töldu einbúið að Höskuldur prestsonur frá Akureyri tæki við sem oddviti listans en nei, sending kom að sunnan. Formaður flokksins af góðri og gildri reykvískri framsóknarætt tilkynnti að hann hygðist bjóða sig fram í oddvitasætið hans Höskuldar sem auðvitað ætlar ekki að sýna flokkshollustu með því að færa sig neðar.  Nú er það svo sem ekkert nýtt að framsókn sendi svona sendingar út í kjördæmin og má meðal annars minnast þess að ég held fyrir 8 árum þá sendi framsókn norður hingað stelputrippi eitt, sem hafði þó þau tengsl við kjördæmið að hafa átt forfeður austur á landi. Í raun rímar þetta svolítið við byggðarstefnu framsóknar sem byggir á því að deila brauðmolum út í byggðirnar út frá veisluborðunum í Reykjavík. Nóg til þess að landsbyggðin hjari til að veita Reykjavík sómasamlegt bakland. Og auðvitað má spyrja sig hvaða þýðingu það hafi að hafa kjördæmi ef það eru aðilar fyrir sunnan sem skikka íbúa þeirra til að taka við svona sendingum sem enga þekkingu hafa á málefnum kjördæmanna. Svo má minnast á annað mál sem lítið hefur farið fyrir í allri umræðunni um kjördæmi og jafnt vægi atkvæða. Atkvæðavægi er ekki jafnt innan kjördæmanna, þannig er að helmingur kjósenda í norðaustur kjördæmi býr á Akureyri en hún hefur ekki nema tvo til þrjá þingmenn meðan Siglufjörður til dæmis hefur tvo. Þetta ættu framsóknarmenn að hugleiða áður en þeir fara að taka við einhverjum sendingum að sunnan sem ekkert erindi eiga hingað í kjördæmið.

Feilspor Guðbjarts

Uppákoman með Björn Zoëga hefur valdið miklum usla í þjóðlífinu síðasta hálfa mánuðinn. Guðbjartur okkar Hannesson sýndi þar glögglega hvaða merkingu hann leggur í orðið velferð þegar hann hækkaði laun mannsins, sem var með hátt á aðra milljón í laun fyrir, um hálfa milljón. Líklega hefði það munað miklu fyrir einstæða öryrkja að fá slíka hækkun en varla fyrir mann með á aðra milljón í mánaðarlaun sem maður skilur eiginlega ekki hvernig hefur tíma til að verja þessari milljón sinni. Og allt í einu varð allt þetta tal um jöfnuð í ríkisfjármálum, sem er nógu gott handa öryrkjunum, það á ekki lengur við þegar tekjurnar eru komnar yfir milljón. Þá þarf ekki að spara lengur.

En líklega hugsar Guðbjartur eitthvað á svipaðan hátt og forsetaframbjóðandi repúblikana sem telur alla bótaþega afætur og reyndar hálfa bandarísku þjóðina sem hann segir lifa á ríkinu. Guðbjartur varð samt, eftir heilan hálfan mánuð að bakka með ákvörðun sína vegna þess að enn er sterkt almenningsálit í landinu. En þetta feilspor hans varði þó í hálfan mánuð áður en það var afnumið. Og þetta feilspor á eftir að fylgja honum í komandi kosningabaráttu.


Samgöngutímamót

Akureyrarbær tekur nú í fyrsta skipti þátt í hinni árlegu, alþjóðlegu eða evrópsku samgönguviku þó þess gæti lítið í sunnanfjölmiðlum sem einskorða þetta fyrirbæri við reykjavik.is

Nokkur tímamót urðu líka í samgöngu- og umhverfismálum á Akureyri um þesar mundir þar sem hingað eru nú komnir bílar sem hægt er að knýja metani jafnt sem bensíni og fór sá sem þetta ritar í sína fyrstu ferð á metanbíl í gær þó enginn sé enn þá metanstöðin á Akureyri heldur var metanið keypt í Reykjavík og bílnum ekið á bensíni norður. En þetta var nýi bíllinn sem Ferliþjónusta fatlaðra á Akureyri er að taka í notkun.

Ekki fannst manni það nú neitt stórkostleg bylting að aka á metani en umhverfislega hlýtur þetta að teljast mjög merkilegt. Þróunin á næstu árum hlýtur að verða sú að horfið verði í síauknum mæli frá jarðefnaeldsneyti og umhverfislega er metan að möru leyti heppilegur kostur. Það má framleiða úr öskuhaugum, lífrænum úrgangi, jafnvel kúaskít sem þarna gæti orðið að miklum verðmætum, ekki veitir víst af að hjálpa bændum eitthvað. Ýmsar aðrar leiðir eru svo sem til, eins og raforka eða vetni og allar geta þessar leiðir á næstu áratugum hjálpað til að gera þjóðarbúið minna og minna háð olíureikningnum að utan.

Að sönnu kann hagnaður olíufélaganna eitthvað að minnka enda augljóst að samdráttur hlýtur að verða í notkun jarðefnaeldsneytis í hlutfalli við það hversu alltaf mun verða dýrara og dýrara að vinna það vegna erfiðra náttúruaðstæðna. En fyrst af öllu, áður en við förum í það þarfa verkefni að skipta um eldsneytisgjafa þurfum við að veita skattaafslátt bæði þessu á eldsneyti og farartækjum sem knúin eru með því. Það má ekki gerast að látið verði eftir olíufélögunum að skattleggja umhverfisvæna orkugjafa til jafns við olíuna bara til að halda henni samkeppnishæfri. Því miður bendir margt til að Skattmann hugsi ekki þannig.  


Örorka er lífsstíll

Að undanförnu hafa glumið í fjölmiðlum auglýsingar frá Öryrkjabandalaginu þess efnis að örorka sé hvorki val né lífsstíll. Vissulega má segja að örorka sé ekkert val, maður velur það varla að vera í ástandi sem hamlar manni að gera ýmsa einfalda hluti eins og þá að sjá, heyra eða ganga, eitthvað svona sem allir halda að sé eðlislægt hverjum manni.

Hitt er annað mál að auðvitað er örorka á vissan hátt lífsstíll. Það er auðvitað lífsstíll að hanga í hjólastólnum sínum, hlusta á hljóðbækur og leika boccia í frístundum. Margir öryrkjar geta ekki haft þann lífsstíl að hlaupa, synda eða elda grænmeti. Að þessu leyti er örorkan auðvitað lífsstíll að svo miklu leyti sem menn geta talað um lífsstíl í ýmsu samhengi en þetta orð finnst manni stundum vera frekar óljóst og jafnvel ofnotað. Að grenna sig eða að borða hollari mat er í sjálfu sér engin breyting á lífsstíl ef hann er að öðru leyti óbreyttur, til dæmis hvað varðar fínar innréttingar, ferðalög, veiðidellu og annað því um líkt. Sumt af þessum hlutum eru gæði sem margir öryrkjar geta ekki leyft sér.


Kjaftshögg náttúrunnar

Mánudagurinn 10. september líður sennilega mörgum Norðlendingnum seint úr minni. Eftir fádæma gott sumar, með hita yfir 20 stig marga daga í röð, fékk náttúran allt í einu ofboðslegt skapvonskukast og gaf fólki aldeilis einn vænan á lúðurinn, svona til að minna á það hver raunverulega réði á Íslandi. Og svo sannarlega sýndi þetta kjaftshögg náttúrunnar okkur það hversu nálægt mörkum hins byggilega heims við í rauninni lifum. Raflínur urðu sverar af ísingu, fé lenti undir fönn og heilu landssvæðin myrkvuðust rétt eins og værum við í Norður-Kóreu. Almannavarnir lýstu yfir neyðarástandi og senda þurfti viðgerðarflokka og fjárleitarmenn allt frá höfuðborgarsvæðinu og norður. Því auðvitað var öllu liðinu safnað saman þar en ekki þar sem bilanirnar verða.

Norðanáhlaupið sýndi okkur glögglega hversu Reykjavíkurmiðað allt þjóðfélagið er orðið. Landsnet sem sjá á um þetta orkunet okkar er með alla sýna viðhaldsþjónustu í Reykjavík, jú eða á Egilsstöðum út af blessuðu álverinu á Reyðarfirði. Meðan sagan sýnir að mesta hættan á bilunum á línukerfinu er yfirleitt á svæðinu frá Blönduvirkjun og austur í Vopnafjörð. Líklega væri vitlegast að stofna nýtt fyrirtæki, jafnvel að einhverju leyti í eigu ríkisins og með höfuðstöðvar á Akureyri, sem sæi um rekstur allra línulagna á Íslandi, hvort sem það eru raflínur, ljósleiðarar eða aðrar línulagnir til orkuflutnings eða fjarskipta. En ekki hafa þetta undir stjórn margra aðila í Reykjavík.

Annað sem athygli vakti voru fjárskaðarnir. Auðvitað hljóta Bændasamtökin að hafa lært sína lexíu og hefja skipuleg, einhvers konar varnarviðbrögð, til dæmis með því að setja á stofn einhvers konar teymi sem skipuleggi aðgerðir komi svona skyndihret eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Mestu skiptir þó að þjóðin geri sér grein fyrir því að íslensk náttúra er óblíð og óútreiknanleg og getur hvenær sem er fengið skapillskuköst af því tagi sem gerðist á dögunum. Það er um að gera að menn láti hana ekki taka sig í bólinu.


Endurtekning sögunnar

Segja má að þessa dagana eigi sér stað endurtekning sögunnar. Ögmundur innanríkisráðherra braut jafnréttislög á nákvæmlega sama hátt og hann hafði fordæmt Björn Bjarnarson fyrir að gera með því að að skipa karlmann í embætti sýslumanns á Húsavík í stað konu sem hafði samkvæmt úrskurði hæfnisnefndar jafn mikið ef ekki meira hæfi til að gegna þessu embætti og því ekki nein skynsamleg skýring á embættisveitingunni en sú að viðkomandi karlmaður hafi annað hvort flokksskírteini í vinstri grænum eða sé á einhvern hátt tengdur eða mægður innanríkisráðherra. Ögmundur hefur hér sýnt að svo ekki sé um villst að hann er kerfiskarl hinn mesti sem að maður hefði svo sem átt að vita  af öllum hans gerðum sem alltaf hafa verið neikvæðar og íhaldssamar, svo sem málefnum flóttamanna, staðgöngumæðrun eða málefnum erlendra fjárfestinga. Í mörgum þessara mála er stefna hans jafnvel enn íhaldssamari en stefna vinstri grænna svona yfirleitt. Sumar yfirlýsingar hans eru stundum ekki í takt við aðra í flokknum. Stundum finnst manni að Steingrímur sjálfur,sem er grútspældur eftir útspil Ögmundar, ætti að hafa á sig rögg og víkja Ögmundi úr ríkisstjórn. Það er pólitísk nauðsyn fyrir kvenfrelsisunnendur innan vinstri grænna að þessi karllægi smánarblettur verði þveginn af flokknum og Ögmundur látinn taka pokann sinn. 


Skólar opna

Eitt órækt merki þess að hið heita sumar sé nú að syngja sitt síðasta er það að nú eru skólarnir sem óðast að opna og umræðan um skólamál tröllríður öllu. Meðal þess sem hvað mest er rætt um er sú tæknibylting sem nú er að verða í skólum og er raunar bara hluti þeirrar tæknibyltingar sem á sér stað í þjóðfélaginu og mun vafalaust gjörbylta því á næstu árum og áratugum. Nú er svo komið að hlutverk kennara er að gjörbreytast þar sem nemendur eru farnir að sitja í tímum sækjandi sér upplýsingar út um allar trissur meðan kennarinn tuðar eitthvað við töfluna sem enginn lætur sig varða.

Sumir ganga svo langt að telja skóla verða úrelta eftir nokkra áratugi og í stað þeirra muni koma einhvers konar þekkingarmiðstöðvar sem fólk muni sækja í og afla sér þeirrar þekkingar sem þörf er á hverju sinni. Verkþjálfun muni færast að mestu yfir á vinnustaði og þjálfunarstöðvar af ýmsu tagi. Þetta er nokkuð róttæk framtíðarsýn og án efa einhverjir áratugir í að hún verði komin til framkvæmda til fulls. Og á meðan þarf sjálfsagt að mennta og ráða kennara eins og nú er gert þótt hlutverk þeirra muni smátt og smátt breytast.

Ekki hefur mjög mikið farið fyrir umræðum um vandamál við kennararáðningar á þessu hausti eins og svo oft áður og ekki hefur heldur verið mikið rætt um jafnrétti til náms eftir búsetu. Að tryggja öllum jafnrétti til náms er nokkuð erfiður hluti en það hefur til dæmis verið gert í Frakklandi með því að fólk sem hefur náð góðum árangri í háskólum hefur átt þess kost að taka sérstök samkeppnispróf og í kjölfar velgengni á þeim þá fær þetta fólk samning um mjög góð kjör gegn skuldbindingu um það að senda megi viðkomandi hvert á land sem er. Eitthvert afbrigði af þessari leið gæti vel komið til greina hér því ekki er hægt að ætlast til að sveitarfélögin fari í blóðuga samkeppni hvert við annað eins og tíðkast hefur til að næla í bestu kennarana án þess að viðkomandi sveitarfélag hafi nokkuð efni á slíku.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband