Færsluflokkur: Bloggar
2.3.2013 | 21:54
Stjórnarskrárbrölt
Það ætlar að ganga illa að klambra saman nýrri stjórnarskrá handa lýðveldinu Íslandi og alls óvíst að það fái hana í afmælisgjöf á komandi sjötugsafmæli þó svo hún hafi raunar alltaf verið meira eða minna í umræðunni allt frá því menn létu gömlu stjórnarskrána að mestu standa óbreytta við lýðveldisstofnun 1944. En slíkt ráðslag átti víst aðeins að vera til bráðabirgða en það hefur samt staðið í nærri 70 ár.
Allar horfur eru á því að hinni rétt ófæddu nýju stjórnarskrá verði ekki einu sinni bjargað með bráðakeisara. Sterk öfl vilja og munu hugsanlega koma í veg fyrir fæðingu hennar. En hún getur þó hæglega valdið töluverðum usla. Stjórnarskrárdrögin eru reyndar komin úr nefnd en menn virðast ætla að draga það von úr viti að halda áfram annarri umræðunni. Ofan á allt þetta vofir yfir vantrauststillagan hans Þórs Saari en samþykkt hennar myndi að sjálfsögðu valda algjörum glundroða. Þingið mundi fara heim, hlaupandi frá öllum málum og jafnvel umræður um slíka tillögu munu tefja svo störf þingsins að það mun ekki hafa tíma til að afgreiða öll þau mál sem fyrir liggja. Þó verður væntanlega reynt að troða í gegn Landsspítalakumbaldanum, náttúruverndarlögunum og hugsanlega jafnvel kvótafrumvarpinu sem gæti svo endað hjá forseta.
Alla veganna er ljóst að það fara í hönd spennandi dagar og afar dramatískir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2013 | 21:21
Hringekjan
Hringekjan er farin af stað.
Fyrir nokkrum dögum var samið um launahækkun fyrir hjúkrunarfræðinga á Landsspítalanum og mikil orð höfð um að jafna launamun kynjanna. Ekki átti að skapa með þessu fordæmi. En hvað gerðist? Að sjálfsögðu ókyrrðust sjúkraliðar nokkuð, enda kvennastétt og vitanlega vilja hjúkrunarfræðingar á Akureyri fá sambærilegar hækkanir og þeir fyrir sunnan þó menn séu tregir til hversu undarlegt sem það er. En svo eru fleiri komnir á kreik. Geislafræðingar, náttúrufræðingar og svo auðvitað loksins læknar sem vitanlega hafa dregist langt aftur úr viðmiðunarstéttum. Þeir munu sjálfsagt hóta því að lama spítalann og fá sínar kauphækkanir. Þá munu sennilega kennarar sjá að þarna hafa einhverjir fengið óeðlilega hækkun og allt er á fleygiferð.
Að venju verður svo gengið látið síga eitthvað með tilheyrandi verðhækkunum því auðvitað er væluröddin hjá atvinnurekendum búin að segja fyrir löngu að verðlag hljóti alltaf að fylgja í kjölfar kauphækkana. Og að sjálfsögðu hækka náttúrulega skuldirnar af því verðtryggingin verður auðvitað ekki afnumin. Lífeyrissjóðirnir og fleiri munu sjá til þess.
Á meðan sitja menn á Alþingi og ræða hvort eitthvað mál skuli takast á dagskrá eða látið vera. Skiptir svo sem engu máli, útkoman verður alltaf álíka vitlaus. Og hringekjan heldur áfram.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2013 | 21:05
Skuldir á skíðum
Skuldir heimilanna voru mættar í Hlíðarfjall síðast liðinn laugardag. Þar var svo mikil umferð lúxusjeppa, hver öðrum glæsilegri, að lögreglan þurfti að stjórna umferð.
Skýringin á þessu mun hafa verið sú að vetrarfrí var í skólum á höfuðborgarsvæðinu, samfara einstaklega góðu veðri og því stormuðu fínu fjölskyldurnar úr borginni á lúxusjeppunum sínum í sínu fínasta skíðapússi.
Margir þessara jeppa eru þannig til komnir að þeir eru keyptir fyrir peninga sem fólk fékk á sínum tíma með skuldbreytingu á íbúðarlánum yfir í ódýr lán sem bankarnir buðu hver í kapp við annan. En lánin voru verðtryggð og því fór sem fór þegar krónan hrapaði. Þannig er stór hluti af skuldum heimilanna til kominn.
Vissulega er til fólk, ungt barnafólk sem tók lán til íbúðakaupa, sem stökkbreyttust. Það er nefnilega eðli verðtryggingarinnar að fólk í rauninni greiðir lánin í annarri mynt en það fær laun sín greidd í. Vissulega eru til erfiðar skuldir en það eru líka til skuldir sem fólk hefur efni á að borga, skuldir sem stofnað var til vegna kaupa á jeppum, flatskjám og öðru glingri. En verðtryggingin fer ekki í manngreinarálit.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2013 | 15:49
Yfirboð í Gullfiskalandi
Þjóðlífið er nú óðum farið að taka á sig svip þess að eftir um átta vikur verður kosið til Alþingis. Þegar eru yfirboðin farin að streyma á öldum ljósvakans út til þegna Gullfiskalands sem löngu eru búnir að gleyma góðærinu, kreppunni og öllum leiðindunum.
Nú ætla til dæmis allir að afnema blessaða verðtrygginguna. Láta þeir þar hæst sem upphaflega skópu skrímsli þetta sem átti hið snarasta að lækka 80% verðbólguna sem í landinu var. Verðtryggingin varð svo reyndar sjálf til þess að magna verðbólguna þegar frá leið vegna þess að hún náði ekki til launanna en eins og allir vita þá fá menn greidd laun í öðrum krónum en verðtryggðu krónunni sem þeir skulda í.
Verðtryggingin sem slík er ekki sjúkdómurinn heldur sjúkdómseinkennið. Sjúkdómurinn er auðvitað verðbólgan en ekki er sagt hvernig hana eigi að lækna. Auðvitað vilja allir afskrifa skuldir heimilanna í snatri. Það versta er að það er ekki hægt að afskrifa skuldirnar. Þó að þær séu afskrifaðar þá eru þær ekki horfnar þar með, þær lenda bara á skattgreiðendum í stað heimilanna. En svo eru það sumir sem ætla að gera heimilin skattlaus og maður spyr sig "Hvar eru skuldirnar þá?" Jú, auðvitað á ríkissjóði sem verður þá svo tekjulítill að hann heldur ekki uppi sameiginlegri þjónustu. Við þurfum að borga úr eigin vösum; sjúkrakostnað, menntun, löggæslu sem glæpamennirnir kosta ekki sjálfir og annað sem nauðsynlegt er eins og til dæmis vegi, flugvelli, hafnir og annað.
Ja, mikið verður gaman að lifa á landinu bláa þegar ríkissjóður hefur ekkert annað þarfara að gera heldur en að þurrka út skuldir heimilanna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2013 | 15:56
Stolnar fjaðrir
Svonefnd Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands hefur komið á fót einhverju fyrirbæri sem kennt er við Norðurslóðir. Ekki er alveg ljóst um hvað þetta norðurslóðabras snýst en einhvern veginn hefur maður það á tilfinningunni að þarna sé ef til vill verið að fara inn á verksvið þeirra Norðurslóðastofnana sem starfað hafa hér á Akureyri undanfarin ár og vakið hafa alþjóðaathygli. Maður spyr sig hvort þarna eigi að næla sér í eitthvert fjármagn sem til þessa hefur runnið hingað til Akureyrar.
Raunar er hér ekki neitt nýtt á ferðinni. Fyrir nokkrum árum þegar Háskólinn á Akureyri var settur á stofn hófst þar kennsla í sjávarútvegsfræðum, sú fyrsta á Íslandi. Einhverjum mánuðum síðar dúkkaði upp fyrirbæri sem nefnt var Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands og ef ég man rétt var Guðrún nokkur Pétursdóttir, fyrrum forsetaframbjóðandi af Kolkrabbaætt, eitthvað í fyrirsvari fyrir stofnun þessa sem ég veit ekki hvort enn er lifandi eða dauð.
Háskóli Íslands stefnir að því að verða einn af hundrað bestu háskólum á jörðinni í nánustu framtíð. Ef þetta á að verða mögulegt verður hann að gera betur en að skreyta sig þannig með stolnum fjöðrum. Þetta ætti hún Stína okkar háskólarektor að hafa hugfast.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2013 | 21:34
Sigmundur á hvítum hesti
Riddari einn á hvítum hesti þeysir inn í kjördæmið með ógnarkrafti og ætlar heldur betur að láta til sín taka, færandi olíu í stríðum straumum og Guð má vita hvað handa sárþyrstu kjördæminu. Og jafnvel prestssonurinn hugljúfi bráðnar sem smér eftir að hafa reynt að berjast fram á síðustu stundu.
Svo furðulegt sem það er þá virðast menn finna hér bjargvætt einn mikinn. Einhverjar spár gefa maddömunni allt að 29% fylgi í kjördæminu sem er tvöfalt það fylgi sem henni er spáð á landsvísu. Við megum þó vita að þegar búið verður að fylla olíutunnurnar verða þær reistar á hvíta hestinn sem nú hefur reyndar breyst í húðarjálk og hann mun eyða síðustu kröftunum við það að bera olíutunnurnar suður yfir heiðar. Í fyrirtækin sem fjölskylda riddarans hugumstóra á fyrir sunnan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2013 | 20:48
Miskunnsamir samverjar
Hún Agnes okkar úr Bolungarvík byrjar biskupstíð sína með stæl. Nú á að blása til söfnunar fyrir tækjum handa Landsspítalanum. Þjóðkirkjan ætlar hér að gerast hinn miskunnsami samverji og hlaupa með því inn í hlutverk ríkisvaldsins sem mörgum virðist hafa brugðist að þessu leyti.
Annars vekur það athygli hvað allir eru allt í einu farnir að safna fé til tækjakaupa fyrir þennan Landsspítala. Stúlkukind er að ganga á Suðurpólinn til ágóða fyrir hann, haldnir eru basarar og nú bætist Þjóðkirkjan við. Það er eins og ekkert annað sjúkrahús sé til á landinu. Finnst manni þó að Agnes ætti að þekkja af eigin raun vandann í heilbrigðismálum landsbyggðarinnar. Það væri nú ekki svo vitlaust að safna til dæmis fyrir góðu bráðasjúkrahúsi á Ísafirði, reynslan af áramótaveðrinu sýnir að Vestfirðir geta hæglega einangrast. Og ef við ætlum í alvöru að gerast gjaldgeng í samkeppninni um miðstöð olíuleitar verðum við að byggja upp gott alþjóðasjúkrahús á Akureyri. Í þessu sambandi má ekki hugsa um einhvern Landsspítalakumbalda sem eyland. Landsspítali verður að vera hluti af stærri heild sem myndar fullkomið, þróað heilbrigðiskerfi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.1.2013 | 15:01
Nýtt upphaf
Enn einu sinni er þjóðin búin að skjóta nokkrum milljónatugum upp í loftið á gamlárskvöld. Skjóta burtu gamla árinu. Eitthvað burt í aldanna skaut, langt úti í alheiminn.
Mestar líkur eru á því að það ártal sem við miðum við sé kolrangt í sagnfræðilegum skilningi, samt sem áður finnst manni alltaf hver áramót marka einhvers konar nýtt upphaf. Og alltaf leyfir maður sér að vera bjartsýnn á áramótum. Vissulega eru margar blikur á lofti og enginn veit hvert næsta ár leiðir okkur. Samt hefur margt áunnist og ekki fórst heimurinn þann 21. desember eins og sagt var að mundi gerast. Sumum finnst heimurinn þó alltaf einhvern veginn vera á leið til fjandans eins og forsetinn okkar ýjaði svolítið að í áramótaávarpi sínu þar sem hann vék að náttúruhamförum og loftslagsmálum. Samkvæmt vísindakenningum verður heimsendir ekki fyrr en að okkur gengnum eða eftir um 600 milljónir ára, ef við verðum sjálf ekki búin að fara með heiminn til fjandans með hegðun okkar í loftslagsmálum.
Þannig vekur það ekki mikið traust á mannkyninu að það skuli næstum því vera búið að fara með Bandaríkin fram af efnahagslegu hengiflugi. Að öfl þar í landi vildu koma í veg fyrir að eitthvað væri hreyft við eignamönnum sem eiga svo mikið að þeir hafa engan tíma til að ráðstafa þessum eignum. Ef mannkynið ætlar að þrauka af í þessum heimi verðum við að fara að breyta okkar eigingjarna, sjálfhverfa hugsunarhætti og taka öll höndum saman til að bæta okkar volaða heim.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.12.2012 | 14:35
Sprengjum árið
Þá er gamlárskvöld framundan.
Þjóðin borðar kalkún, dettur í það, kveikir í brennum og skýtur upp flugeldum. Áramótin eru gjörsamlega sprengd í loft upp og leysast upp í miklum ljósum og litadýrð.
Flugeldasala er sem kunnugt er stærsta tekjulind björgunarsveitanna en þær hafa haft ærinn starfa á liðnu ári. Mikið óskaplega væri það slæmt ef þeirra nyti ekki við. Því verður maður hugsi yfir því að til skuli vera aðilar sem endilega vilji keppa við þær um skotelda landsmanna. Sú spurning vaknar hvort ekki mætti setja einhver lög um það að björgunarsveitir hefðu einkarétt á sölu flugelda á ákveðnu tímabili, til dæmis frá miðjum desember til miðs janúar.
Íþróttafélög eða heildsalar standa almennt ekki í því að hlaupa upp um holt og heiðar til að bjarga mannslífum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.12.2012 | 14:23
Í aldanna skaut
Þá er blessuð jólahátíðin um garð gengin, þjóðin búin að éta á sig gat og að vanda friðaði hún samviskuna á líkamsræktarstöðvunum strax á annan í jólum. Og auðvitað þurfti líkamsræktin að kosta peninga, það verður að kaupa aflátsbréfin fyrir drýgðar jafnt sem ódrýgðar syndir. Og senn líður þetta afmælisár Akureyrar í aldanna skaut eins og öll hin árin þar sem þau hvíla í friði í umlykjandi mishlýjum faðmi eilífðarinnar.
Við minnumst þessa árs mikilla öfga bæði hjá náttúru og mannfólki. Hitar og þurrkar einkenndu sumarið og hretviðri haustmánuðina. Stjórnmálin gengu eins og vanalega, við kusum okkur forseta og jólamálþófið var á sínum stað. Ríkisstjórnin getur hvorki lifað né dáið. Sennilega versta ríkisstjórn sem hugsast getur, en ef til vill jafnframt sú einasta sem komið getur þjóðinni út úr stórsjó kreppunnar án þess að þjóðarskútan brotni í mél.
En nýtt ár er handan við hornið með öllum sínum flugeldum, áramótaheitum sem aldrei verða efnd og kosningum sem hugsanlega færa okkur nýja stjórn. Stjórn sem hugsanlega tekst að koma þjóðinni fram af hengifluginu nema enn takist hið ómögulega sem alltaf hefur tekist að halda skútunni á floti með þessari frábæru "þetta reddast" efnahags- og fjármálastefnu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)