Færsluflokkur: Bloggar

Í skjóli nætur.

Þjóðin var víst ekki öll í fastasvefni aðfararnótt þriðjudagsins 29.október.  Í skjóli nætur byrjaði KSÍ í gegnum miði.is að selja miða á landsleik íslendinga og króata þann 15.nóveber, í krapa og kulda Laugardalsvallar.  En þrátt fyrir vosbúðina fyrirhuguðu seldust miðarnir upp á nokkrum tímum án þess að nokkur vissi að yfirhöfuð ætti að selja þá. 

Öllu alvarlegra myrkraverk var það þó þegar 17 albönum var laumað úr landi með einhverri flugvél sem Evrópusambandið lét í té og var nú víst ekki of gott þó menn almennt vilji hvorki heyra það né sjá.  Voru í hóp þessum m.a. kona komin langt á leið og barn fætt á Íslandi, sem sjálfsagt á samkvæmt alþjóðarlögum einhvern þegnrétt hér.  En Hanna Birna og útlendingastofnun hennar eru ekkert að fást við svona smámuni. 

Íslandi skal halda hreinu frá hvers kyns óværu.  Það kostar samfélagið milljónir að halda uppi þessari heimskulegu síu gagnvart útlendingum í landi sem er stórt, víðlent og hefur sára þörf fyrir fólk, þó ekki sé nema að koma í veg fyrir úrkynjun þjóðarinnar.


Um efni fram.

Fyrir nokkru var að þvælast um á Spengisandi hagfræðingsnefna ein, gott ef ekki sá sem eitt sinn var helsti ráðgjafi Davíðs nokkurs Oddssonar.  Þessi hagfræðingur kom með gömlu gatslitnu plötuna, sem ofspiluð var hér fyrir nokkrum árum, um að þjóðin hefði lifað um efni fram.  Vel má vera að þjóðin hafi lifað um efni fram en helsta dæmið sem hagfræðingurinn tók, var ekki mjög sannfærandi.  Hann talaði um alla fínu barnaskólana sem reistir hefðu verið vítt og breytt um landið í plássum sem síðar höfðu lögst meira og minna í eyði.  Vel má vera að þarna hafi verið eytt um efni fram, en þegar betur er að gáð þá er sú eyðsla lítilvæg miðað við ýmislegt annað.  Það væri fróðlegt að sjá hvað þjóðin hefur eytt miklu í arðlaust verslunarhúsnæði, allskyns Kringlur og Smáralindir, allar Hörpurnar og ráðhúsin sem engu skila.  Líklegt er að ef þessar byggingar hefðu ekki verið reistar gætum við nú verið með fullkomið heilbrigðis-og menntakerfi og samgöngukerfi sem ekki væri eins og aftan úr miðöldum.  Við íslendingar höfum etv lifað um efni fram, þó er sennilega frekar hægt að segja að við höfum forgangsraðað á rangan hátt, því þjóðarframleiðsla okkar er mikil og við eigum miklar auðlindir. 

Hátt verðlag.

Það mátti næstum glytta í silfurskeiðarnar í munni fjármálaráðherrans okkar þegar hann á dögunum talaði um að verkalýðshreyfingin þyrfti að stilla kaupkröfum í hóf.  Það getur vel verið að svo sé, en þá þurfa fleiri að gæta hófs.  Sennilega hefur aumingja fjármálaráðherrann ekki gert sér grein fyrir því hversu hátt verðlagið er í dag, þarf sennilega ekki að hafa svo miklar áhyggjur af því og hefur aldrei þurft.  Hátt verðlag á Íslandi á sér ýmsar orsakir.  Nefna má fjarlægðina frá mörkuðum, mikla þörf fyrir innflutningsverslun sem leytt hefur af sér þau vandamál sem lággengisstefnan hefur skapað, að nota gengisskráningu ekki sem hitamæli á efnahagsstjórn heldur sem hagstjórnartæki eða jafnvel tæki til að græða peninga, eins og nýlegt dæmi leiðir í ljós.  Hér bætist svo við sú óhugnanlega fjárfesting sem hér er í verslunarhúsnæði, en sagt er að í Reykjavík sé meira verslunarrými í fermetrum talið en í Kaupmannahöfn.  Færa má rök að því að Smáralind og jafnvel Kringlan séu offjárfestingar.  Sumar verslanir eru á báðum stöðum og leigan er svo há að álagningin stendur ekki undir henni.  Laun á Íslandi kunna að vera há en staðreyndin er sú að þau duga ekkert í dag vegna þess hversu verðlag er hátt, að miklu leyti að óþörfu.

Götur bæjarins

Í minningunni frá námsárunum í Frakklandi er það hvaða hlutverki manni þóttu götunöfnin í frönskum bæjum og borgum oftlega gegna. Maður gat jafnvel getið sér nokkuð til um pólitíska hefð viðkomandi sveitarfélags með því að skoða götunöfnin í bænum. Þannig var í minningunni bærinn sem undirritaður bjó í, lengi undir stjórn kommúnista og voru því götunöfnin mjög á þeim vængnum. Þar voru til dæmis götur sem bæði voru kenndar við Marx og Lenín. Aftur á móti gat maður séð það að ef aðaltorgið í borginni hét eftir De Gaulle eða Napoleon þá var viðkomandi sveitarstjórn frekar á hægri vængnum. Vissulega voru þó borgir þar sem götunöfnin voru þau sömu hver svo sem pólitískur litur viðkomandi borgarstjórnar var. Þannig mátti í flestum bæjum og borgum finna götur kenndar við Victor Hugo, Alexandre Dumas eða einhverja aðra merkismenn.

Hér á landi hefur þessi hefð ekki skapast. Að sönnu eru til einstaka götur sem heita eftir frægum sonum og dætrum landsins eða viðkomandi staða en slíkt er engan veginn algild regla. Finnst manni þó að þetta gæti verið gaman, ekki síst með tilliti til staðbundinnar ferðaþjónustu. Eyfirðingar eiga til að mynda fræga einstaklinga sem ekki hafa fengið sínar götur. Má þar nefna Nonna, Jónas Hallgrímsson, Víga-Glúm, Káinn og vafalaust einhverja fleiri. Það væri ekki svo vitlaus hugmynd að bæjarstjórn Akureyrar tæki til athugunar að gefa frægum sonum og dætrum Eyjafjarðar sína götu í stað þess að vera með öll þessi flatneskjulegu -tún, -lunda, -gerði og -síður.


Bleikur snjór

Þessi mánuður er bleikur, ekki er um það að villast. Allt er bleikt sem hægt er að mála bleikt. Snjórinn sem féll í Reykjavík á dögunum var að sönnu ekki bleikur en þó svo væri ekki var eins og heimsendir væri kominn í fjölmiðlunum. 13 sentimetra snjór olli samgöngutruflunum og hvers kyns vandræðum enda enginn viðbúnaður gegn þvílíkum hamförum. En fyrir utan þennan snjó virðist svo sem flest sé bleikt í þessum meistaramánuði. Þegar allir setja sér takmörk um einhverjar betri og hollari lífsvenjur enda ekki seinna vænna áður en allt jólatilstandið byrjar. Reyndar eru jólin nú þegar komin í Rúmfatalagerinn og þau eiga sjálfsagt eftir að skjóta upp kollinum víðar næstu daga enda þegar farið að auglýsa jólahlaðborð, jólaföndur og hitt eða annað jóla. Jólasnjórinn verður ekki bleikur frekar en það að menn muni vinna bug á brjóstakrabbameini í framtíðinni.

En nú er spurt: "Verður marsmánuður blár að þessu sinni?"


Afstæðar fjarlægðir.

Uppi varð fótur og fit í gær þegar tölvusneiðmyndatæki Landspítalans bilaði.  Nokkuð sem varla er í frásögu færandi þar sem þarna virðast tækin alltaf vera í skralli.  En nú er mikið drama á ferðinni því það þurfti að fara að flytja sjúklinga milli spítala í Reykjavík, sem svona venjulega tekur líklega yfirleitt innan við hálftíma.  Nú skal það vissulega viðurkennt að það er ekkert voða þæginlegt að vera fluttur þarna hverfanna á milli, etv stórslasaður og þetta getur jafnvel verið hættulegt.  En það er þó til varatæki á svæðinu.  Ef tækið td á Akureyri bilar þá kostar það upp undir klukkutíma ferð í flugvél að komast í annað tæki, ef það er þá í lagi.  Fjarlægðirnar geta stundum verið afstæðar og reyndar eru til staðir á Íslandi þar sem það tekur einhverja klukkutíma að komast í næsta sneiðmyndatæki.   Þetta verða menn að hugsa um þegar þeir ræða um spítala.  Ef til vill er þessi hugsun um stóran Landspítala í Reykjavík tímaskekkja, amk hefur verið sýnt fram á að aðgerðir séu oft ódýrari á minni spítölum.  Sú spurning vaknar hvort menn ættu ekki að fara í það að útbúa svo sem 2 til 3 bráðadeildir á landinu og nokkur minni sérhæfð sjúkrahús, hvort það yrði ekki hagkvæmari og ódýrari lausn.


Fjárlögin sungin og leikin.

Í huganum birtist bernskuminning.  Á skrifborðinu hans afa liggur bók með fjárrekstri á forsíðunni.  Þegar inn í bókina er gáð sést að hún inniheldur nótur og söngtexta við ýmis þekkt alþýðulög.  Söngbók þessi hefur manna á meðal gengið undir nafninu fjárlögin og verið einkar vinsæl.  Menn geta deilt um gæði tónsmíðanna í bók þessari en eitt er víst að ekki geta þær tónsmíðar talist mikið verri en fjárlög þau sem í dag eru sungin og leikin í gráleytu tónlistarhúsinu þarna við Austuvöll.  Raunar finnst mörgum tónlist þessi harla gamaldags og fölsk og útsetningar allar fátæklegar og einhæfar.  Lítið ber á nýsköpun, margt góðra mála slegið af en prófaðar eru ýmsar nýjungar, margar vafasamar eins og legugjöldin góðu, sem að vísu eru nokkrar horfur á að ekki muni nást í gegn, enda málið allt hið klaufalegasta.  Þá eru skattalækkanirnar sem boðaðar eru alveg sérstakur brandari, heilar 3894 krónur fyrir fólk með 770.000 í mánaðartekjur.  Hið hlálega er þó líklega þetta með 500 milljóna tekjuafgang.  Það er nú þegar vitað að þegar frumvarpið góða kemur til annarra umræðu verður strax kominn halli sem væntanlega mun ekki minnka við þriðju umræðu, þar sem þegar er vitað um örugg útgjöld sem ekki eru í frumvarpinu núna.  Reyndar rekur mann ekki minni til að fjárlög hafi nokkurn tímann verið afgreidd með jafn góðri niðurstöðu og þegar þau voru upphaflega lögð fram. 


Lög og líffræði.

Í morgun gaf að líta, sem aðalfyrirsögn í textavarpinu "Börn á bar á suðurnesjum".  Maður hrökk óþæginlega við hvort þarna væri verið að fjalla um einhverja foreldra sem hefðu verið með litlu afkvæmin sín inni á einhverjum bar þarna á suðurnesjunum, en þegar fréttin var lesin kom í ljós að þarna var um að ræða 16 og 17 ára unglinga sem kallaðir voru börn og auk þess einn 18 ára sem kallaður var maður.  Manni finnst þetta svoldið skondið að einstaklingur skuli vera barn þegar hann er 17 ára en þegar hann er orðinn 18 er hann allt í einu maður.  Þó í rauninni sé munurinn í raun enginn, báðir voru að brjóta lög með því að vera að drekka innan tvítugs og bareigandinn væntanlega líka með því að veita þeim.  En lögin kalla menn víst börn, þar til á miðnætti átjánda afmælisdagsins.  Maður er barn einni mínútu fyrir miðnætti, en maður einni mínútu eftir miðnætti. Þvílík breyting á tveimur mínútum!! 

Auðvitað hafa lögin ekkert með líffræði að gera heldur er hér um einhversskonar tæknilega útfærslu að ræða og í raun frekar óheppilegt að nota þarna orðið barn, þar sem í líffræði á hugtakið barn við um einstakling undir kynþroskaaldri.  Heppilegra væri td að nota orð eins og lögaldur, myndug aldur, ungmenni eða eitthvað slíkt orð sem ekki hefði neina beina líffræðilega skírskotun.  Við köllum fólk ekki endilega gamalmenni þó það byrji að taka ellilífeyri 67 ára að aldri og raunar held ég að það fólk sé ekkert endilega álitið gamalt á þeim aldri.  Lögin nota ákveðin orð sem þurfa ekki alltaf að vera rökrétt.


Á ríkisjötuna.

Sú frétt barst nú fyrir helgina að Gísli Marteinn Baldursson hefði ákveðið allt í einu að hætta í pólitík og fara í einhversskonar sjálfskipaða útlegð frá borgarmálunum, enda virðist sossem honum hafi ekki þótt málefni sín fá gott brautargengi innan flokksins.  Sjálfstæðismenn í borgarstjórn virðast engan áhuga hafa á því að vera skemmtilegir eins og Jón Gnarr, hvað þá að vera umhverfisvænir eða flugvallar andstæðingar.  Sem góðum og gegnum frjálshyggjumanni ber, þá lá leið hans beint á ríkisjötuna enda tuggan þar mun betri en sú sem einkageirinn ber fram.  Skjólið er hlýtt undir blágrænum fána menntamálaráðherra og Palla Magg en þó að sjálfstæðismenn hafi etv talið sig hafa losnað við einhver óþægindi við brottför Gísla Marteins, þá er ekki víst að af henni stafi eintómur gróði.  Ekki er ólíklegt að besti flokkurinn fái einhver óánægð íhaldsatkvæði í vor og ekkert öruggt að þátturinn hans Gísla Marteins verði eins heiðblár og ætla mætti. 


Herótes og Pílatus.

Ísland í dag fjallaði í kvöld um alvarlegt mál sem upp kom í grunnskóla einum í Reykjavík.  Móðir kom fram og lýsti alvarlegu einelti sem hún kvað dóttur sína hafa orðið fyrir af hendi kennara sl. 2 ár.  Lýsti hún göngu sinni milli Herótesar og Pílatusar útaf þessu máli, þar sem hver kastaði máli þessu á milli sín og fyrrti sig ábyrgð og kórónuðu svo alla vitleysuna þegar barnaverndarnefn Reykjavíkur sendi málið til meðferðar hjá skólanum sjálfum. 

En þetta mun ekki einsdæmi á Íslandi, svo oft sem það kemur fyrir að aðilum er falið að hafa eftirlit með sjálfum sér.  Nú er það hið ágætasta mál að þetta komi fram í dagsljósið enda viðbúið að slík framkoma kennara sé etv algengari en margir halda.  Eins saknaði maður þó í þessari umfjöllun. Það eru yfirleitt foreldrar sem kvarta yfir meðferðinni yfir börnum sínum, hitt er augljóst að til eru dæmi um meðvirkni foreldra með kennurum og skólastjórnendum í slíkum málum.  Stundum til að forða fína fólkinu í einhverju tilteknu plássi frá hneyksli t.d.  Slík mál verður að kanna ef þörf þykir, en ekki veit maður eiginlega hvernig best er að haga því, hugsanlega væri þá hægt að nýta sér hjálp skólasálfræðinga, námsráðgjafa eða annarra fagmanna í þessu skyni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband