22.12.2013 | 21:39
Jólasveinapólitík.
Þá er búið að draga tjaldið fyrir sviðið í leikhúsinu við Austurvöll, þar sem hin árlega jólasýning var að enda. Nokkurn veginn eftir sama handriti og undanfarin síðustu ár. Öfugt við hina venjulegu jólasveina, sem nú streyma til byggða, eru jólasveinarnir við Austurvöll roknir heim í kjördæmin og koma ekki aftur fyrr en í janúar.
Að vanda voru ýmsar uppákomumur. Ríkisstjórnin kom fram með tillögur, etv að þessu sinni í óvægnasta lagi, sumar sennilega hugsaðar sem skiptimynt í samningum við stjórnaraðstöðuna, enda kom á daginn að sumar þær ósvífnustu voru dregnar til baka eins og t.d. innritunargjöldin og lækkun á barnabótum.
Nógu mikið stóð þó eftir, m.a var pizzuveislu hátekjufólksins nær alveg haldið til streitu og fast staðið gegn allri leiðréttingu fyrir tekjulægsta fólkið, sem nú má aðeins éta það sem úti frýs, og hjálparstofnanir geta nurlað saman. Á sama tíma eru snjallsímar víst algeng jólagjöf og golfferðir sumarsins að seljast upp.
Jólasveinarnir sjá svo sannarlega um sína, en það eru sveitastjórnarkosningar í vor og vonandi gefa menn yfirvöldum einhverja áminningu.
Að þessu mæltu er aðeins eftir að óska öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2013 | 16:43
Palli farinn.
Það var sem sprengja félli inn í fréttatíma hádegisútvarpsins þegar sagt var frá því að Páll Magnússon, útvarpsstjóri hefði sagt af sér. Palli væri farinn, þreyttur á að vera alltaf einn í heiminum.
Það er ekki nema von þó hann hafi ekki lengur traust stjórnarinnar, stjórnin hefur eiginlega ekki lengur traust almennings eftir að Illugi gerði hana pólitíska. Því auðvitað hlýtur að vera erfitt að starfa undir pólitískri stjórn ef maður hefur einhvern snefil af hugsjónum. En e.t.v getur Palli sjálfum sér, að einhverju leyti, um kennt. Líklega hefði hann átt að standa betur við hlið starfsmanna sinna gegn hinni gerræðislegu árás stjórnvalda sem engu eira í dag.
Allt skal eyðilagt og brotið sem hönd á festir. E.t.v hefði útvarpsstjóri frekar átt að ræða það við starfsfólk hvort ekki mætti hagræða og spara án þess að henda burtu tugum manna. Var t.d ekki hægt að hætta við að líta á Ríkisútvarpið sem fjölmiðlasamsteypu í samkeppnisrekstri og ráðast á ýmis gömul kýli, t.d þularkerfið á Rás 1.
Slíkar kerfisbreytingar hefðu e.t.v skilað sama árangri og niðurskurðurinn. Þá er auðvitað ótalinn sá möguleiki að selja höllina og breyta henni í fangelsi, eins og Kristján Möller stakk einhverntíman uppá.
Nú spyrja menn hvern Illugi mun velja í staðinn. Getum við jafnvel átt von á því að Gísli Marteinn verði dúkkaður upp og gerður að útvarpsstjóra?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2013 | 18:14
Deiglan á Íslandi
Arhur Miller hinn bandaríski, skrifaði frægt leikrit sem nefnist Í Deiglunni og fjallar um galdraofsóknir, að mig minnir í Salem í Bandaríkjunum í lok 17.aldar. En í rauninni mun umfjöllunarefni leikrits þessa vera McCarthy ofsóknirnar sem stóðu yfir allnokkur ár og gengu út á hættuna af kommúnistum. Allir voru kommúnistar nema þeir gætu sannað að þeir væru það ekki. Galdraofsóknir líkt og í Salem og á McCarthy tímabilinu virðast nú hafa skotið upp kollinum í allsérstæðri mynd á Íslandi.
Ef þú ert ásakaður um að vera barnaníðingur, jafnvel með nafnlausri símhringinu, ertu barnaníðingur nema þú getir sannað að þú sérst það ekki. Jafnvel þó þú hafir aldrei verið barnaníðingur. Það nægir jafnvel að hafa sýnt vott af samúð með slíkum í bloggfærslu, þá ert þú sjálfkrafa orðinn barnaníðingur.
Barnaníð er að sjálfsögðu skelfilegur hlutur, en við verðum líka að átta okkur á því að þeir sem það stunda eru ekki endilega glæpamenn heldur er þessi hlutur álitinn geðsjúkdómur, sem á sér margar sálfræðilegar og líffræðilegar skýringar. Í þessu sambandi má nefna að áður var samkynhneigð talin glæpur, eða ofdrykkja í dag er amk búið að sjúkdómsvæða ofdrykkjuna eftir að fínt fólk fór í meðferð í Bandaríkjunum. Við skulum gæta þess í allri umfjöllun um þennan skelfilega hlut, sem barnaníð er, að dæma ekki til þess að verða ekki sjálfir dæmdir. Um þessa hluti þarf að fjalla af fagmennsku, ekki í æsifréttastíl.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2013 | 21:11
Fjallkonan afmeyjuð.
Mánudaginn 2.desember barst út ógnvænleg frétt á öldum ljósvakans. Geðsjúkur maður skaut úr íbúð sinni á lögregluna og hún til baka.
Þegar á daginn leið kom í ljós að maðurinn hafði verið særður til ólífis. Einhvernveginn flaug það gegnum huga manns að þarna hafi fjallkonan á vissan hátt verið afmeyjuð. Við sem höfum lifað í þessu landi urðum í fyrsta skipti í sögunni vitni af því að lögreglan banaði manni með skotvopni.
Ekki hefur enn komið í ljós hvernig þetta gat átt sér stað, en líklegt má telja að um sé að kenna margvíslegum samverkandi ástæðum. Hérna var auðvitað um harmleik að ræða og mikil er skömm þess þjóðfélags sem lætur svona nokkuð viðgangast, að fársjúkur maður fái ekki þá umönnun sem hann þarfnast og að hann skuli óáreyttur getað komist yfir skotvopn, hvernig sossem það hefur gerst, og ömurlegt er til þess að vita að menn skuli eyða peningum í fánýtt brauð og leiki í stað þess að koma á fót þolanlegri félagsþjónustu í sveitafélagi sínu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.12.2013 | 21:02
Helgispjöll
Mánudaginn í aðventubyrjun mátti heyra þau í "Virkum morgnum" á Rás 2 spila einstaklega rokkaða útgáfu af gamla góða jólasálminum "Í Betlehem er barn oss fætt" sem flutt var af Kim Larsen, hinum danska. Þarna má e.t.v. segja að Andri og Gunna Dís hafi framið tvö helgispjöll, að flytja þessa rokkútgáfu af sálminum og hins vegar að flytja sálminn fyrir klukkan 18 á aðfangadagskvöld. En hvað leyfa menn sér ekki þarna á RÚVinu þessa dagana. Það er meira að segja verið að slátra gömlu góðu gufunni Rás 1, sem kallar sjálfa sig Útvarp Reykjavík og það hlýtur að ganga guðlasti næst að skerða sjálft Útvarp Reykjavík, enda viðbrögðin afar sterk hvort sem þau koma frá Blindrarfélaginu eða menningarvitum, en Illugi situr við sinn keip.
Ríkisfjármálum þarf að kippa í lag þó bara þurfi líka að kasta 80 milljörðum í heimilin svona til að hressa upp á fylgið. Jú, það kvað víst eiga að henda einhverju í Landspítalahítuna, en enginn veit hvaða þeir milljarðar koma. Það er búið að taka svo marga milljarða frá ólíklegustu aðilinum að varla er hægt að taka frá fleirum og ekki má víst taka lán. En væri nú ekki betra að verja einhverjum milljörðum í að greiða skuldirnar upp svo svigrúm megi skapast til að eyða í hin misjafnlega þörfu verk sem vinna þarf?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2013 | 21:18
Samkomulag og kofaskrifli.
Samkomulag það sem nýverið var gert milli innanríkisráðuneytisins og Reykjavíkurborgar um flugvöllinn í Vatnsmýrinni, snýst í rauninni fyrst og fremst um það að kofaskrifli þau sem kallast flugstöð fái enn að standa þarna um einhverja tíð.
Þannig vill nefnilega til að Reykjavíkurborg virðist skilja samninginn þannig að flugvöllurinn skuli fara árið 2022, en ráðuneytið skilur hann svo að flugvöllurinn skuli vera þarna um aldur og ævi.
Vitanlega verður ekki farið í að byggja nýja flugstöð ef ætlunin er að loka flugvellinum eftir 9 ár. Slík fjárfesting væri óðs manns æði. Maður fær stundum sting í hjartað þegar maður lendir þarna og teygar að sér hið dásamlega rykmengaða Reykjavíkur loft og horfir á þessa tötrarlegu kofa sem standa þarna og hafa þarna verið allt frá stríðslokum.
Maður spyr sig, hvers vegna þessa óvissu. Af hverju er ekki tekin ákvörðun nú þegar um það hvort þessi flugvöllur fari eða veri. Annaðhvort byggi menn þarna sómasamlega flugstöð eða vindi bráðan bug að því að loka flugvellinum og í framhaldinu draga verulega úr hlutverki Reykjavíkur sem höfuðborgar og gera innanlandsflugið aðallega að tengiflugi við utanlandsflug. Ef það verður ekki þegar horfið áður vegna hins fáránlega okurs á farmiðum eins og viðgengst í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2013 | 21:06
Ódýrt í Kína.
Það kvað vera ódýrt í Kína.
Sendingarnar streyma til landsins af vörum sem pantaðar eru þaðan á netinu og skýringin á því er næsta einföld, þessar vörur eru miklu ódýrari en í verslunum hér. Skiptir engu máli þó vörurnar séu oft meira eða minna falsaðar, þær eru það mikið ódýrari að fólk er fúst að taka áhættuna.
Umboðsaðilar fínu vörumerkjanna kveinka sér auðvitað yfir þessu og tala fjálglega um fölsuð vörumerki, barnaþrælkun og því um líkt. En stundum finnst manni þeir mættu ögn líta í eigin barm. Vissulega getur vara verið dýr, einfaldlega vegna þess að hún heitir Nike eða eitthvað annað án þess að hún sé endilega eitthvað betri en sambærileg vara sem ekki heitir eitthvað fallegt.
En við þetta bætist það gífurlega okur sem hér viðgengst í verslun vegna gífurlegra offjárfestinga, td. þessari áráttu að vera með verslun bæði í Kringlunni og Smáralind og borga háa leigu á báðum stöðum. Smáralindin reyndar ein alsherjar offjárfesting útaf fyrir sig. Þá hljómar allt talið um barnaþrælkun stundum dálítið hjáróma.
Á allra vitorði er að mörg af fínu vörumerkjunum láta framleiða fyrir sig í löndum á borð við Kína, Bangladesh eða Indland, þar sem barnaþrælkun er landlæg og menn selja vörurnar dýrum dómum á vesturlöndum. Gróðinn fer ekki til hálfsoltinna barnanna í Bangladesh eða Kína heldur til fína jakkafataklæddu braskaranna sem sitja við tölvuskjáina í New York, London eða bara Reykjavík.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.11.2013 | 18:30
Fjölskyldukauphöll.
Næstkomandi laugardag stendur til að halda í prumpháskóla þeim sem kennir sig við Reykjavík, einhverja uppákomu sem nefnd er Kauphallardagur og snýst víst aðallega um það að kenna mönnum það hvernig helst sé hægt að græða á kauphallarbraski og auðvitað er uppákoman fjölskylduvæn, eins og mjög er í tísku þessa dagana.
Börnin fá að leika sér í sýndarveruleika allskyns tölvuleikja, en auðvitað er hér í raun og veru verið að ala þau upp sem gróðrafíkla, en vitanlega er kaupahallarbrask ekkert annað en fjárhættuspil fína fólksins og þó svo einhverjir vinni stundum góðar fúlgur þá gildir hér eins og í öllu öðru fjárhættuspili að flestir tapa og margir stórt þar sem bankinn hlýtur alltaf að vinna.
Menn hafa talað fjálglega um spilavanda en eru á sama tíma með ríkisstyrk að ala upp spilafíkla, meðal annarra orða....hvers vegna dettur engum í hug að spara með því að hætta ríkisstyrk til stofnunar sem hefur að markmiði að kenna fólki að græða?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.11.2013 | 17:36
Að eyða í sparnað.
Fyrir nokkru auglýsti Landsbankinn eitthvað á það leið að nú skyldi fólk fara að eyða í sparnað.
Manni flaug það í hug hvernig væri hægt að eyða í sparnað, en nú þessa síðustu daga er eiginlega komin skýring á þessu.
Stjórnvöld virðast nú í óða önn vera farin í einmitt þetta, að eyða í sparnað þ.e.a.s. sparnaðurinn mun að öllum líkindum valda auknum fjárútlátum síðar.
Dæmi um þetta: Ákveðið hefur verið að leggja 9 sjúkrabílum á landsbyggðinni. Þó heilbrigðisráðherra reyni að sverja þetta af sér virðist svo sem hann hafi samt sem áður tekið ákvörðun um að standa við þessa samningar frá 2011. Að leggja 9 sjúkrabílum á ákveðnum dreifbýlissvæðum mun það í fyllingu tímans valda auknum útgjöldum, bæði vegna hugsanlegra aukinna notkunna sjúkraþyrlna og etv. því að sjúklingar komist enn veikari undir læknishendur. Annað dæmi er niðurskurðurinn til vísindarannsókna. Hætt er við að hann muni í fyllingu tímans valda eyðslu á sviði óþarfa frumrannsókna og etv rangra ákvarðanna í fjárfestingum.
Hérna á stundum við gamla góða máltækið sem segir: Með því að spara aurinn er maður að kasta krónunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.10.2013 | 17:46
Gestir fara heim.
Í fyrra var á dagskrá Rásar 2 vinsæll þáttur sem nefndist "Gestir út um allt" og var hann sendur út frá Hofi á Akureyri. En svo virðist sem nú séu gestirnir farnir heim. Af einhverjum ástæðum hafa menn ekki séð ástæðu til að hafa þennan þátt áfram á dagskránni, þrátt fyrir vinsældir hans, enda var hann að ýmsu leyti svolítið öðruvísi, ef svo má segja.
Afleiðingin er sú m.a. að nokkur samdráttur virðist vera í rekstri Hofs, ekki síst veitningastaðarins, sem mjög naut góðs af útvarpsþættinum. Svo virðist sem hér sé enn eitt dæmið um það hvernig verið er að festa Útvarp Reykjavík enn í sessi. Sú stefna sem Palli tók þegar farið var að skera niður, þ.e.a.s að byrja á landsbyggðinni virðist ætla að halda áfram. Ekki svo að Ríkisútvarpið sé eins blankt og það vill vera láta þó svo að Illugi vilji kasta því á auglýsingamarkað eftir að hafa gerð það pólitískt. A.m.k virðast vera nógir peningar til að kosta hverskyns sprikl og sprell a.m.k meðan það fer fram í Reykjavík og er undir stjórn þóknanlegra umsjónarmanna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)